Tímarit Máls og menningar - 01.09.1996, Qupperneq 81
Af svipuðu tagi er sú tilhneiging í báðum bókum (og þó algengari hjá
Hamsun) að tala um persónur í eins konar nafnlausu tímaleysi: Bóndinn,
konan, gamla konan, stúlkan, og gefur frásögninni goðsögulegan svip.
Hrifning Halldórs af stílbrögðum Hamsuns skín því víða í gegn í Sjálfstæðu
fólki. Þeim muna meiru skipti það hann að sýna að hann hefði annan
skilning á hlutverki skáldskaparins en norski skáldbróðirinn.
* * *
Sjálfstætt fólk fjallar ekki síður um vanda skáldskaparins en vandamál
bænda. Hér er að finna þrenns konar hefðbundinn skáldskap sem ber merki
ritúals fremur en sköpunar, en hefúr þó einsog margir helgisiðir huggunar-
hlutverk fyrir þann sem fer með hann. Þetta gildir hvort heldur er um
skáldskap Bjarts sjálfs, sem rúmar lítinn boðskap í ströngum bragreglum
sínum; heimsósóma Einars í Undirhlíð, og sálma Hallberu gömlu. f eina
skiptið sem Bjartur kemst nálægt því að tjá tilfinningu í skáldskap er þegar
hann ákveður að flatríma til að sýna að hann geti ort nútímavísur—og reynt
að sættast við Ástu Sóllilju („ef eingin jurt vex í þinni krús“ . . .). f heimi
skáldsögunnar eru þetta einsog þrjú afbrigði af þeim rímnaskáldskap sem
hélt lífi í þjóðinni á hörmungartímum; formfastur, hefðbundinn kveðskapur
laus við persónulegar tilfmningar.
Tvenns konar tilfinningaskáldskap bregður fyrir, og hlýtur mun verri
einkunn en rímurnar. Rauðsmýrarmaddaman boðar lýrískan og sálrænan
kveðskap, en hvorugt þessara lýsingarorða vifdi Halldór hafa um sinn skáld-
skap. Ástarljóð kennarans eru ekki skárri, ósannur kveðskapur sem gerir ekki
annað en að rugla Ástu Sóllilju í ríminu og villa henni sýn.
En á þá sá skáldskaparskilningur sem Halldór aðhylltist sjálfur sér engan
fulltrúa í verkinu? Jú reyndar, og einsog off síðar hjá þessum höfundi er hann
að finna í söngnum. Hvergi kemur það betur fram en þegar lýst er tilfinn-
ingum Nonna andspænis djúpri sorg systur sinnar:
Það var í fyrsta sinn sem hann sá inní völundarhús mannssálar-
innar. Því fór fjarri að hann skildi það. En það sem meira var: hann
leið með henni. Laungu laungu seinna endurlifði hann þessa
minníngu í saung; bæði í sínum fegursta saung, og í fegursta saung
heimsins. Því skilníngurinn á umkomuleysi sálarinnar, á barátt-
unni milli tveggja skauta, það er ekki uppspretta hins æðsta saungs.
Samlíðunin er uppspretta hins æðsta saungs. Samlíðunin með
Ástu Sóllilju á jörðinni (s. 389).
Þessi skilningur á hlutverki skáldskaparins endurómar í ræðu Ólafs Kára-
sonar yfir erfiðismönnum á Sviðinsvík. Þetta er ekki boðunarskáldskapur,
TMM 1996:3
79