Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Page 36
36
JÓN ÓLAFSSON
laus eða óumdeild, ekki frekar en menntastefna. Engar niðurstöður eru
einhlítar og vettvangur háskólans er því vettvangur togstreitu sem lýkur
aldrei.
III.
Sú þróun sem Nussbaum lýsir hefur breytt háskólasamfélaginu á þann veg
að allir – almenningur, stjórnvöld og nemendur í háskólum – gera meiri
kröfur til háskóla um skilvirkni, þjónustu og gæði kennslu en áður var. Í
vissum skilningi má halda því fram að þjónustukrafan skerði akademískt
frelsi háskólamanna. Þeir geta ekki lengur gert ráð fyrir því að vera ein-
göngu metnir á grundvelli rannsókna sinna. Flestir háskólamenn verða nú
að sjá starf sitt í ljósi fjölbreyttra skyldna við nemendur sína og háskóla.
Um leið verður allt starf háskóla samfélagsmiðaðra og væntingarnar til
þeirra meiri og flóknari.
Í bókinni Kreppa á kampus. Djarfleg áætlun um umbætur háskólanna,
reynir Mark C. Taylor að bregðast við þeim vanda sem breyttar kröfur til
háskóla hafa skapað. Hann heldur því beinlínis fram að rannsóknir
háskólakennara geti dregið úr gæðum háskólastarfs. Hann skrifar:
Þegar vaxandi fjöldi háskólakennara einblínir á rannsóknir og birt-
ingar, stríða hagsmunir þeirra gegn þörfum nemenda. Eftir því sem
viðfangsefni þessara háskólakennara verða sérhæfðari og verk þeirra
torskildari öðrum en þröngum hópi, verður námskráin einnig mót-
sagnakenndari. Menntunin sjálf missir tengsl við samfélagið og
hættir að skipta máli.16
Hér er engu líkara en Taylor sé að hluta að orða sömu áhyggjuefni og
Nussbaum, en með breyttum formerkjum. Ólíkt Nussbaum tekur hann
undir kröfur nemenda og foreldra um skilvirkara háskólastarf, menntun
sem hefur skýrari tilgang gagnvart samfélaginu og betri tengingu við það
sem nemendurnir fara að fást við eftir að þeir ljúka námi. Þegar bækur
Nussbaum og Taylors eru lesnar saman verður til merkileg mynd af
háskólanum sem stofnun og samfélagi. Taylor lítur ekki svo á að vandi
háskólanna birtist í því að slíkar kröfur séu gerðar til þeirra, en telur hann
felast í því að háskólarnir bregðast ekki við þessum eðlilegu kröfum. Þeir
halda áfram að standa vörð um rannsóknir og birtingar þegar þær eru ekki
16 Mark Taylor, Crisis on Campus. A Bold Plan for Reforming our Colleges and Uni
versities, New York: Alfred Knopf, 2010, bls. 4.