Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.01.2011, Síða 153
153
SKRIF VIÐ NÚLLPUNKT
inn að innsta „kjarna“. Borrörið er með öðrum orðum enn á sínum stað,
það gnæfir yfir pallinn en tengir hann líka við jörðina. John er sannfærður
um að svarti hluturinn sé þarna niðri og það eina sem hann þarf að gera til
að finna og koma höndum yfir þennan óræða hlut er að láta sig síga niður
borrörið innanvert. Ferðasagan þegar hann snýr aftur er nánast ótrúleg. Í
tómri hvelfingu í iðrum jarðar, óendanlega víðfeðmri, myrkri og tómri
(því það er búið að fjarlægja alla olíuna), uppgötvar John heillandi veröld,
hann kynnist einhverju óviðjafnanlegu innra með sjálfum sér. Algjör fjar-
vera skynhrifa opnar nýja vídd: „það hvarflaði að mér að ég sæi undir yfir-
borð hlutanna, í bjarmann sem barst innan úr efninu sjálfu, ‘ljósgjafann’“
(bls. 274). Þetta er tilfinning sem reynist ómótstæðileg þrátt fyrir þær
óhugnanlegu vísbendingar sem felast í óþreyjufullu ýlfri sem berst frá eyju
í svörtu stöðuvatni.
Í framrás sögunnar rifjar Benni upp eina minningu frá tímabilinu fyrir
heimsslitin en hún tengist ánamaðki: „Maðkurinn var á leiðinni niður um
holu í moldinni“ en Benni minnist þess að hafa flýtt „sér að grípa um end-
ann á honum og kom [þannig] í veg fyrir að hann slyppi […] Hann byrjaði
að toga maðkinn í sitt hvora áttina; fyrst laust en svo fastar þegar honum
fannst eins og hann streittist á móti, þar til maðkurinn slitnaði í tvo jafn
stóra helminga“ (bls. 264–265). Hér er á ferðinni saga sem við fyrstu sýn
virðist ekki merkingarþrungin, þótt Benni kvarti að vísu annars staðar
undan því að líða eins og hann sé að klofna í tvennt (bls. 210), líkt og
óskiljanleg öfl séu að toga hann sitt í hvora áttina. Skírskotunin til handa-
hófskenndrar grimmdar í garð náttúrunnar kann að skipta máli en nær-
tækara er að beina sjónum að eigindum maðksins sem sagan leggur áherslu
á. Það er að segja, maðkinum sem eins konar lífrænni borvél sem brýst í
gegnum svörðinn og ofan í jörðina, en í atganginum fræðist Benni einmitt
um hreyfigetu verunnar „[v]iðbrögð maðksins við þessari skyndilegu árás
voru að draga sig saman og skjóta út örsmáum göddum, hrjúfum við fing-
urna. Aha, mundi Benni að hann hugsaði […] þannig ýttu litlu kvikindin
sér í gegnum moldina“ (bls. 264–265). Hrjúfir gaddar vélgera náttúrulega
veru og kallast það á við hvernig textinn ljær sjálfum borpallinum lífræna
vídd þar sem hann birtist á teikningu sem er „endurprentuð“ í bókinni
(bls. 239). Á teikningunni, sem og í lýsingunni sjálfri (bls. 295), ummynd-
ast mannvirkið í einhvers konar ókennilega lífveru, jafnvel risavaxið skor-
dýr, sem stendur á löngum mjóum löppum í miðri eyðimörkinni. „Lapp-
irnar“ halda „búknum“ á lofti og þaðan liggur „rani“ í jörðina sem sýgur