Skírnir - 01.04.1987, Page 160
154 ARTHÚR BJÖRGVIN BOLLASON SKÍRNIR
sem eru að verki í vitundar- og sálarlífi manna. Mér er til efs að nokkur geti
neitað því, að menn séu „hvorki eins einlægir né falskir og halda mætti af
orðum þeirra og verkum“ (66) eða því, að „of mikill þroski eins sálarþáttar
dregur vöxt úr hinum“ (83). Sömuleiðis munu að líkindum flestir geta fall-
ist á, að „því betur gefinn sem maðurinn er, því viðkvæmari er hann“ (97)
sem og að í öllu sálarlífi fari fram „sífeldur reipdráttur milli hugsana og til-
finninga" (188). Sumar þeirra athugasemda, sem höfundur gerir um sálar-
lífið, orka á hinn bóginn tvímælis. An þess að hér sé ástæða til að elta ólar
við slíkt má nefna sem dæmi, að margir eiga að líkindum erfitt með að taka
undir það sem Sigurður segir um hugsunarlíf rithöfunda. Það má t. d. draga
í efa, að lýsing hans á ástum þess, sem fæst við að skrifa bækur, eigi við um
alla meðlimi Rithöfundasambandsins: „Ef hann elskar konu, þá sundur-
limar hann hana og kryfur eins og hún væri lík á skurðarborði. . . Ef hún
fleygir sér um hálsinn á honum hugsunarlaust í augnabliks tilfinningu, þá
dæmir hann þessa hreifingu eftir því, hvað vel hún á heima eftir ástæðum,
hvað hún er vel gerð og mundi vera hrífandi á leiksviði, og hann fordæmir
hana í huga sér ef hún er tilgerðarleg eða vantar yndisþokka“ (172).
Af slíkum dæmum má ráða, að höfundur kemur víða við, enda efnið
margslungið. Sá grunntónn sem ríkir í þessum hugleiðingum Sigurðar um
vanda mannsins - um vanda þess að vera manneskja, með öllum þeim ófull-
komleika og takmörkunum sem þeirri veru fylgja - er hinn sami og kveður
við í öðrum verkum höfundar af líkum toga. I eftirmála við aðra útgáfu
Fornlra ásta, sem út kom í fyrsta sinn árið 1919, segir höfundur m. a., að
„trúin á gildi og reynslukosti einstaklingsins, krafan til leitar hans að sem
fyllstum og heilustum þroska“ sé sú lífsskoðun sem móti „Hel“ og aðra
þætti í þeirri bók.4 Þetta tvennt, trúin á gildi einstaklingsins og krafan um
að hann leiti eftir sem fyllstum þroska, er burðarásinn í fyrirlestrum Sig-
urðar um einlyndi og marglyndi. Markmið þessarar krufningar á andstæð-
um kröftum sálarlífsins, ólíkum skapgerðum og sjálfráðum lífsstefnum, er
að brýna fyrir mönnum að efla þroska sinn með því að rækta það besta sem
í þeim býr. „Það er aðeins til ein dauðasynd, synd sem á sér ekki neina
bjartari rétthverfu: það er tregðan, dáðleysið. En hæsta mannleg dygð, sú
sem hlýtur að geta allt annað gott af sér, er hvíldarlaus viðleitni til hærri og
hærri þróunar" (239).
Það er ljóst af slíkum dómum, að Sigurði lét ekki illa að sveipa sig skikkju
prédikarans. I erindum sínum um líf og dauða, sem hann flutti í útvarp árið
1940, segir hann reyndar hreint út, að erindin eigi að vera eins konar pré-
dikanir. Þvínæst bætir hann við: „Og í sjálfu þessu orði er fólgið, að sá sem
prédikar, er alltaf að halda einhverju að áheyrendum sínum, sem verður
ekki sannað með óyggjandi rökum.“5 Endaþótt viðfangsefni Sigurðar í Lífi
og dauða sé af nokkuð öðrum toga en efnið sem hann glímir við í Einlyndi
og marglyndi, er ýmislegt í hinum síðarnefndu lestrum, sem ekki verður
sannað með „óyggjandi rökum“. Það er nú einu sinni svo, þegar kemur að
dularvíddum sálarlífsins og hugsjónum manna, að þá verður oft harla fátt