Skírnir - 01.09.1993, Page 10
312
SVAVA JAKOBSDÓTTIR
SKlRNIR
hefði þá sagt að svona gæti það hafa farið. En ímyndunarafl hans
er ekki sjálfstætt, einangrað fyrirbæri heldur tengt veruleika.
Lóan sem hann yrkir um er að vísu hugsuð en um leið (eða þess
vegna) veruleiki. Gegn sýnilegum heimi Hildar teflir hann ósýni-
legum heimi þar sem andstæðurnar milli náttúru og hugar eru
máðar út og þennan ósýnilega heim hefur hann raungert í kvæði.
Pilturinn er því að lýsa ákveðnum skilningi á eðli ímyndunarafls,
eða hugsæis, og um leið sýn sinni á veröldina. Sé svarið ekki fjar-
stæðukennt bull úr gáskafullum dreng hlýtur það að vera heim-
speki.
Skeiðin í þessu ferli eru þrjú: ósýnilegi heimurinn-hugdetta-
kvæði og gert er ráð fyrir samvirkni ósýnilega heimsins og hug-
dettu. Munu menn nú glöggt sjá að hér erum við komin á slóð
rómantískrar náttúruheimspeki, sem gerði ráð fyrir víxlverkun og
samruna milli hins ytra heims og hins innra, efnis og anda, þar
sem skapandi ímyndunarafl skáldsins gegndi lykilhlutverki við að
leysa úr læðingi öfl sem blunduðu í náttúrunni. Hugur piltsins,
skapandi ímyndunarkrafturinn, hefur átt þátt í ferlinu sem lýst er
í vísunni og gert úr því mynd í skáldskap.
Pilturinn í Grasaferð sem trúir á sköpunarmátt hugar er
einnig sannfærður um skáldgáfu og orðkynngi fóstursystur sinn-
ar, raunar svo sannfærður, að hann væri „hjartansfeginn" að eigna
sér kveðskap hennar. Álit hans á skáldskap Hildar er því sannar-
lega ekki lítið. Það sem hún lætur sér um munn fara er engin
markleysa, að hans dómi, og þarf engan að undra að honum
bregði þegar hún lætur að því liggja skömmu síðar að ferð hans á
skugganum gæti verið upphaf að langvinnri dvöl annars staðar,
fjarri henni og heimilinu: „Þá gætirðu setzt að á Sljettunni, þang-
að til þú ert orðinn nógu stór til að geta gengið heim aptur og
vaðið árnar á leiðinni“ (bls. 23).
Þau umbrot sem verða í kjölfar þessara ummæla má túlka í
ljósi hugmyndanna sem pilturinn hefur rétt áður sett fram. Hlýt-
ur hann ekki að minnast eigin ummæla og hugsa: svona mun það
fara, annars hefði henni varla dottið það í hug?
En sagan er margræð og er raunar með eindæmum hvað ein-
faldur söguþráður ber uppi margslungna og mikilvæga innri
sögu. Sé öllum táknum og vísunum haldið til haga, kemur í ljós