Skírnir - 01.09.1993, Page 18
320
SVAVA JAKOBSDÓTTIR
SKÍRNIR
ágætu eðliskosti Hildar en sálarveilu í drengnum. En hefur ekki
fólkið á bænum rétt fyrir sér í því að þetta sé bernskt athæfi og
honum beri að leggja niður barnaskapinn? Þegar þrettán ára
bráðgáfaður unglingur, sem býr yfir heilbrigðum metnaði að
verða stór eins og glögglega kemur fram í sögunni, getur ekki
sleppt þeim barnsvana að láta fimmtán ára stúlku leiða sig, þrátt
fyrir vanþóknun umhverfisins, þá hlýtur sálarlíf hans að vera
flóknara en sýnist á yfirborðinu. Er þessi hegðun einungis
„skemmtun“ eins og hann virðist álíta sjálfur eða leynist veila í
sálarlífinu? Sagan beinlínis krefst þess að við reynum að skyggna
tilfinningalíf drengsins. Hvers vegna - ef mér leyfist að bregða
fyrir mig orðaleik - getur hann ekki hugsað sér að Hildur sleppi
af honum hendi?
Svarið við þessu er að finna í kynningu sögumanns á högum
sínum framarlega í sögunni. Þar er atferli hans sálfræðilega undir-
byggt og sýnir að þörf drengsins fyrir umhyggju Hildar á sér
djúpar og sálrænar orsakir. Kynningin byrjar svo: „Þessi systir
mín, sem jeg kallaði, hjet Hildur Bjarnadóttir,“ og endar á full-
yrðingunni sem fyrr var til vitnað: „Bezt fjell mjer samt æfinlega
við hana Hildi systur mína, og henni var jeg þægari, enn
nokkrum manni öðrum á heimilinu“ (bls. 11).
Pilturinn hefur mátt þola óvenjusáran missi á viðkvæmum
barnsaldri. Aðeins fjögurra vetra gamall missti hann föður og
móður, hvort á eftir öðru og missti þá um leið bernskuheimili
sitt. Hann eignaðist fósturheimili þar sem móðursystir hans var
húsfreyja. En hún dó líka „þegar jeg var barn“, eins og segir í
textanum (bls. 10). Orðalagið er athyglisvert. Ef til vill hefði mátt
vænta að sögumaður segði „þegar Hildur var barn“ því að um er
að ræða móður hennar. En hann heldur sig við eigið sjónarhorn.
Enda þótt þessi kynning á fólki og fjölskylduhögum hafi yfir-
bragð almenns hlutleysis, er höfundurinn að leggja grunninn að
ríkjandi tilfinningu verksins og henni má ekki drepa á dreif.
Hann einskorðar sig við aðstæður sem mótað hafa sálarlíf drengs-
ins, ekki annarra. Og kjarni þessarar lýsingar á högum drengsins
er hlutskipti munaðarleysingja sem býr þar að auki við ástleysi af
hálfu þess fullorðna fólks sem eftir er á fósturheimilinu: fóstri