Skírnir - 01.09.1993, Page 19
SKÍRNIR PARADÍSAR MISSIR JÓNASAR HALLGRÍMSSONAR
321
hans er „aldrei svo blíður eða eiginlegur í máli, að jeg gæti fest ást
á honum“ (bls. 11) og ráðskonan er beinlínis ill við hann.
Það væri grunnhyggni að ætla að drengurinn væri jafn-
áhyggjulaus og virðist á ytra borði. An Hildar Bjarnadóttur væri
hann alger einstæðingur. Hjá henni einni á hann athvarf. Og
kannski er það óttinn við að missa hana líka sem rekur hann hvað
eftir annað eins og í ósjálfræði til að seilast eftir hönd hennar, fá
áþreifanlega sönnun fyrir návist hennar?
En áhersla söguhöfundar er ekki á sálarkvöl fortíðar, heldur á
sambandi þeirra frændsystkina eins og það er í nútíma sögunnar,
og í upphafi bendir ekkert til að drengurinn geri sér sjálfur grein
fyrir angist sinni. Frásögn sögumanns af æviatriðum úr frum-
bernsku er ekki huglæg upprifjun í þeim skilningi að hann
„muni“ tilfinningar sínar. Hann skýrir aðeins frá því sem hann
veit. Þetta er vitanlega eðlilegt út frá sjónarmiði raunsæis en fær
mikla þýðingu þegar hugað er að formi sögunnar. Sagan býr yfir
tvöföldu minni, annars vegar minni hins unga sögumanns sem
nær yfir tímabilið frá fjögurra til þrettán ára aldurs og hins vegar
minni hins fullorðna sögumanns sem nær lengra fram í tímann og
veit hvað á eftir að gerast.
Þegar hin eiginlega grasaferð er farin hefur drengurinn verið
samvistum við Hildi, systur sína, í níu ár eða m.ö.o. „frá því að
hann man eftir sér“ og allt leikur í lyndi meðan hennar nýtur
við.6 Það er ekki fyrr en hún sjálf fer að losa um böndin sem ang-
istin kemur upp á yfirborðið. Eftir því sem þessi innri saga þróast
kemur æ betur í ljós að glaðlegt yfirborðið dylur sálarháska.
Grunntónn sögunnar er ótti við missi.
6 1 kynningu sögunnar á drengnum er samsvörun við ævi Jónasar Hallgríms-
sonar sjálfs. Þegar hann var níu ára gamall gerbreyttust hagir hans. Eftir svip-
legt fráfall föður síns var Jónas sendur að heiman í fóstur; á viðkvæmum
barnsaldri var hann því búinn að missa allt: föður, móður, systkini og
bernskuheimili. Það má leiða að því huga, hvort Grasaferð byggi á persónu-
legri reynslu höfundar og opni okkur sýn í sálarlíf barns sem í vanmætti sín-
um skynjar ráðstöfun móðurinnar sem refsingu, brottvísun úr (bernsku)
paradís. Þemað um Maríu mey sem vísar barni á brott úr Paradís, má einnig
sjá í „Maríubarninu", hluta af ævintýri sem Jónas þýddi.