Skírnir - 01.09.1993, Page 21
SKÍRNIR PARADÍSAR MISSIR JÓNASAR HALLGRÍMSSONAR
323
rósin hreina. Grunnmerkingin er þó persónuleg handleiðsla guð-
dómsins. Svipað og Dante velur Jónas táknræna liti í klæðnaði,
hvítt táknar trú, grænt táknar von, en í stað rauða litar kærleikans
hjá Dante hefur Jónas blátt, sem er tákn himinsins. Þegar hugað
er að því að þau ætla í fjallgöngu að leita gróðurreits, sem hefur
þegar verið sýndur í upphafi sögu sem „fyrirheitna landið“ og
hún hefur lofað að taka hann með sér þangað, þá fara öll vötn að
renna til Dýrafjarðar og sannarlega eftirsóknarvert að slást í för-
ina. Og kemur æ betur í ljós því ofar sem dregur að fjallgangan er
táknrænt ferðalag til Paradísar í stíl við alþekktan hefðbundinn
trúarskáldskap.
Frægasta paradísarlýsing í bókmenntum seinni alda er hinn
epíski ljóðabálkur Paradise Lost eftir John Milton (útg. 1667).
Paradísar missir kom út í heild á íslensku árið 1828 í þýðingu
Jóns Þorlákssonar á Bægisá. Sé Grasaferð borin saman við Para-
dísar missi koma svo ótvíræð líkindi í ljós að óhætt mun að full-
yrða að Jónas hafi sniðið kristnum hugarheimi Grasaferðar bún-
ing eftir Paradísar missi. Mun ég hér á eftir leitast við að sýna á
hvern hátt Jónas Hallgrímsson eys af þeim brunni.
Leitin að Paradís á jörðu eða Ferðin til Paradísar var orðin
rótgróin bókmenntahefð á miðöldum. Lýsingarnar á Paradís og
ferðinni þangað urðu allstaðlaðar enda byggðar upphaflega á
sannfæringu manna á því að Eden væri raunverulega til á jörðinni
og ýmsar hugmyndir um staðinn voru sóttar í 1. Mósebók. Talið
var að Paradís lægi uppi á afarháu fjalli og voru sumir lærðir
menn þeirrar skoðunar að hún hefði af þeim ástæðum staðið af
sér Nóaflóðið.9 Nokkur grundvallarminni haldast í þessum lýs-
ingum Paradísar á jörðu og má nefna þessi: hún lá í austurvegi,
var óaðgengileg sakir legu sinnar á hásléttu uppi á fjalli - eða á
eyju - þar var garður sem einkenndist af gnægð jurta, blóma og
9 Á síðmiðöldum munu lærdómsmenn hafa hafnað þessari skoðun, sbr. neðan-
málsgrein í Paradísar missi Jóns Þorlákssonar, bls. 376: „Þat er flestra lærðra
manna meiníng, at Paradís hafi umturnast í syndaflóðinu." í útgáfunni eru
engar athugasemdir auðkenndar Jóni Þorlákssyni sjálfum og segir í formála:
„þess má hér ok geta, at færstar athugasemdirnar eru af honum [þýðandan-
um], heldr af útgefendum aðaltexta kvæðisins, t.d. af Th. Newton, Richardson
ok Addíson" (bls. 8; sjá nmgr. 13).