Skírnir - 01.09.1993, Page 22
324
SVAVA JAKOBSDÓTTIR
SKÍRNIR
ávaxta. Fuglasöngs er víða getið. í Paradís er eilíft vor, ilmur er í
lofti og mildur blær leikur um garðinn. Meðal megineinkenna
teljast líka meiður lífsins og fjórar ár sem eiga þar upptök sín.10
Leitin að Paradís á jörðu telst sjálfstæð bókmenntagrein en
sömu minni koma fyrir í leiðslubókmenntum og allegóríum. Sá
er helsti munur á paradísarferðum og leiðslubókmenntum að hin-
ar fyrrnefndu eru ferðalýsingar í þessu jarðvistarlífi en þær síðar-
nefndu eru sýnir eða vitranir sem viðkomandi fær um vistarverur
eftir dauðann.11 Fylgdarmaður í leiðslubókmenntum er oftast
engill en ekki guðdómurinn sjálfur, og fylgdin er fremur leiðsögn
en handleiðsla í bókstaflegum skilningi. I allegórískri fjallgöngu
þeirra Dantes og Virgils gegnum hreinsunareldinn til hinnar jarð-
nesku Paradísar munu samankomin nánast öll hefðbundin bók-
menntaminni paradísarleitar sem þekktust á miðöldum.12
Paradísar missir Miltons er epískur ljóðabálkur um syndafall-
ið. Verkið er með eindæmum myndauðugt og á köflum fallega
ljóðrænt, ekki síst náttúrulýsingarnar; efnið er mikilfenglegt og
háleitt og ort er af miklum lærdómi og þekkingu. Milton eys
einnig ríkulega af bókmenntahefðinni í lýsingu sinni á Paradís.
Þar er að finna lýsingu á Paradísarför Adams, en Milton fylgir 1.
Mósebók 2:15 í því að Adam var ekki skapaður í Eden, heldur
settur þar af Guði. Sjálfur Guð tekur Adam við hönd sér og leið-
ir upp fjallið. Milton víkur því á athyglisverðan hátt frá hefð-
10 Howard Rollin Patch, The Other World (Smith College Studies in Modern
Languages). Cambridge, Massachusetts 1950, bls. 153-154. Greinargóða um-
fjöllun um jarðneska paradís sem bókmenntaminni á miðöldum er að finna í
köflunum: The Literature of Visions, Journeys to Paradise, Allegory, bls. 80 -
229. Dæmigerða lýsingu á Paradís á jörðu má lesa í ritinu Heimslýsing ok
helgifrœði sem varðveitt er í Hauksbók, Kaupmannahöfn 1892-96, bls. 152.
Hún er á þessa leið: „Sva er sagt at paradis er hinn æsti lutr þessarar veraldar.
Þar var Adamr settr oc etlaðr til dyrðar ef hann heldi þat er guð bauð honum.
Þar er sua goð vist at þar eru blomar oc viðir oc oll gros með hinni somo fegrð
jafnan. Þar er huarke ofhiti ne kuldi. Þar stendr þat tre er maðr kennir eigi
sottar ne meinsemdar ef hann bergir þar af. oc heitir þat lifs tre. aller þessa
heims koster fylgja þar en engir eru anmarkar. brunnr er sa þar er fylgja oll
vatns friðendi. þanan falla or .íííj. aer i þenna heim. Phison oc Gion. Tigris. oc
Eufrates. paradis er i austri heimsens. oc veria bio(r)g oc hitar at menn skili
eigi þangat komast.“
11 Sbr. Patch, bls. 134.
12 Sbr. Patch, bls. 184 -185.