Skírnir - 01.09.1993, Page 45
SKÍRNIR PARADÍSAR MISSIR JÓNASAR HALLGRÍMSSONAR
347
lítilmótleik. Hildur beitir snjöllu sálfræðilegu bragði er hún fær
drenginn til að draga dár að sjálfum sér. Eftirherman vekur
frelsandi hlátur, hann losnar úr þröngum viðjum sjálfhverfunnar
og fær hlutlægari sýn á sjálfan sig og heiminn. Mikilvægast er þó
að með þessum hætti hefur Hildur komið því til leiðar að vonin
glæðist á ný í brjósti hans og ferðin verður léttari. Hann hefur
staðist prófraun, vaxið upp úr barnaskapnum. En nú fer að draga
til tíðinda. Þegar Hildur lofar því að kalla hann aldrei „litla
frænda" meir bætir hún við: „og þegar þú ert orðinn stór, mun
jeg verða að venja mig af því, hvort sem jeg vil eða ekki“ (bls. 14).
Athyglisverð eru viðbrögð piltsins: „Jeg varð einhvern veginn
undarlegur, þegar talið snjerist sona við; mjer fannst nú lítið til
þessa loforðs, og vissi ekki vel, hverju jeg átti að svara“ (bls. 14;
leturbreyting mín).
Hér hefði auðvitað mátt ætla að hann gleddist yfir loforði
systur sinnar, svo mjög sem honum hafði sárnað að vera minntur
„svona ósjálfrátt“ á smæð sína og ungan aldur, en þá gerast þau
hvörf í sálarlífi hans að honum finnst lítið til þessa loforðs koma.
Hvað veldur? Jú, hún hefur óvart komið við kviku í sálarlífi hans,
vakið angist hans með því að gefa í skyn að sambandið milli
þeirra muni breytast, að hann muni vaxa frá henni. Tilfinningin
sem grípur hann er ný og hann getur ekki orðað hana nema
óljóst, „jeg varð einhvern veginn undarlegur", en svar hans er
skýrt: „jeg skal kalla þig systur mína samt“ (bls. 14). Sú nánd sem
ávarpsorðið miðlar verður að haldast. Til þess að tryggja það er
hann staðráðinn í að kalla hana aldrei annað en systur sína. Hér
er vísað beint til rómantískrar trúar á orðið. Hann ætlar ekki að
„kalla fram“ aðskilnað þeirra í hugsun eða orði og í næsta og síð-
asta áfanga sjáum við hvaða aðferð hann beitir. Enn er ákefð
veiðimannsins honum efst í huga og um leið og þau eru komin
gegnum skoruna og inn á Bröttuskeið lætur hann fögnuð sinn í
ljós yfir „fengnum“.
En gleði hans yfir því að sjá von sína rætast er sorglega írónísk
og hún verkar á tveimur sviðum samtímis vegna aðgreiningar
sögumanns frá höfundinum. Skilningur sögumanns er takmark-
aður og lýsing hans hlutlæg. Hann talar einvörðungu fyrir munn
ungmennis, sem hann líkir við veiðimann, er telur sig hafa náð