Skírnir - 01.09.1993, Page 46
348
SVAVA JAKOBSDÓTTIR
SKÍRNIR
takmarki sínu og lætur í ljós ótímabæran fögnuð. Írónía höfundar
er tvíþætt: í ljósi rósamrar lífsstundar góðs manns lýsir fögnuður-
inn ofmetnaði hins veraldarsinnaða æskumanns, sem í sókn eftir
heimsins gæðum áttar sig ekki á „sönnum“ gæðum lífsins í kristi-
legum skilningi. Hins vegar er írónían rómantísk í því að æðsta
sælan er þegar farin að hverfast í andstæðu sína þótt í grunleysi sé
sungið dirrindí. Óviss von lætur einatt til skammar verða, segir
Jónas Hallgrímsson sjálfur í prófræðu sinni í Bessastaðakirkju
árið 1829 og má mikið vera ef aðstöðu sögumanns/piltsins er ekki
best lýst með eftirfarandi klausu úr henni, sem er raunar í beinu
framhaldi af því sem áður var vitnað í úr prófræðunni:
[...] því jarðnesk gæði eru hverful, heimsins útlit breytist og gleðinnar
mynd stendur langt á bak við mann þegar hann loksins þykist vera kom-
inn að því eftirþreyða takmarki. (bls. 335)28
„Hin óvissa von“ lætur ekki til skammar verða í því að grösin
bregðist. Af þeim er meira en nóg, en frásögnin um grasatínsluna
sjálfa er stuttorð og tefur harla lítið fyrir framvindu sögu. I þriðja
áfanganum, milli annarrar og þriðju útsýnismyndar, er innri
söguþráður, tilfinninga- og trúarlíf drengsins, rakinn áfram, óslit-
ið. Og kaflinn í heild sinni er fyrirboði um yfirvofandi vá og
óumflýjanleg endalok.
Fljótlega sest Hildur niður við að sauma fyrir peysuna til þess
að pilturinn nái sem mestu af „heimsins gæðum“ (maðurinn hef-
ur frjálsan vilja og er því ábyrgur gjörða sinna) en hún fer fram á
að hann segi sér sögu á meðan. Honum dettur ekkert í hug „sem
vit er í“ en veður elginn um fyrirbæri og persónur úr þjóðsögum.
Það er vert að staldra við þetta atriði sérstaklega. Höfundur er
28 í prófræðu sinni notar Jónas orðalagið „skugga sem flýr“ sem hliðstæðu, eða
myndhverfingu, um hverfulleik jarðneskra gæða. Á þetta bendir Guðmundur
Andri Thorsson í greininni „Ferðalok Jónasar" (Tímarit Mdls og menningar 4.
hefti 1990) og tengir við skuggann í Grasaferð. Ég er þó þeirrar skoðunar að
samanburður á skuggunum standist ekki. Skuggi prófræðunnar er eðlis-
óskyldur guðdómlegum skýja-skuggum Grasaferðar og ljóst af samhengi í
báðum ritsmíðum að skuggamyndirnar eru gagnólíkrar merkingar.