Skírnir - 01.09.1993, Side 47
SKÍRNIR PARADÍSAR MISSIR JÓNASAR HALLGRlMSSONAR
349
hvorki svo lítilþægur rómantískri tísku að hann skelli inn „þjóð-
legum fróðleik" í tilgangsleysi, né svo yfirborðskenndur að hann
ætli sér að skapa einhvers konar meiningarlausa hrollvekju sem
andstæðu við bjarta sumardýrð. Þetta atriði er vandlega innbyggt
í hugmyndaheim sögunnar og hefur ákveðinn tilgang fyrir fram-
rás hennar. Þennan þjóðlega fróðleik verðum við að skyggna frá
sjónarhóli kristni, ekki síður en rómantíkur. Aldrei verður úr því
að pilturinn segi eiginlega sögu því að systir hans hélt „að lítið
yrði úr öllum þessháttar sögum í björtu“ (bls. 16) og er næsta ör-
uggt að í ummælum hennar felst skírskotun til þeirrar trúar krist-
inna manna að meinvættir þrífist ekki í ljósi! Þjóðsagnaatriðið er
nánast eingöngu fólgið í því að pilturinn telur upp, allt að því
kerfisbundið, nöfn alræmds illþýðis. Hann nefnir galdramann
(séra Eirík í Vogsósum), útilegumenn, morðingja (Björn í Oxl),
Þorgeirsbola og aðra illræmda drauga. Þessi „fjandafjöld" fyllir
flokk útskúfaðra úr eilífri sælu, þetta eru „himins útlagar" (orða-
lag JÞ), utan útilegumennirnir, sem eru útreknir úr mannheimum.
Mergur málsins er sá að ekki einungis er hugur piltsins uppfullur
af samherjum skrattans, heldur nefnir hann þá alla með nafni
upphátt. Auðvitað er þetta makalaus ósvífni í miðri Paradís og
reyndar má greina á stílnum að höfundurinn hefur, a.m.k. undir
niðri, haft nokkurt gaman af. Hildur gerir líka þá athugasemd við
þetta skemmtiatriði hans að enginn maður geti séð hvort honum
sé alvara eða gaman. En það er full alvara á ferðum í ljósi róman-
tískrar orðkynngi.
Athæfi piltsins minnir óþyrmilega á atriðið úr Paradísar missi
þegar Satan kallar alla ára til sín og fylkir þeim upp. „Grúi sá
þakti gjörvalla sléttu“, segir þar. Upptalning Miltons á útskúfuð-
um er löng og skrautleg og fer mest fyrir heiðnum guðum og hjá-
guðum, en einn þeirra er kallaður „morðingi" og annar kemur
síðar við sögu í dulfræðum síðmiðalda og tengist því göldrum.29
29 Sbr. neðanmálsgrein í Paradise Lost (bls. 28). Hér er átt við Azazel, sem var
fánaberi Satans. Nafnið Azazel kemur fyrst fyrir í 3. Mósebók 16:8. Þess er þó
rétt að geta að engin athugasemd er neðanmáls um Azazel þennan í þýðingu
Jóns Þorlákssonar og verður því ekkert fullyrt um þekkingu Jónasar Hall-
grímssonar á hlutverki Azazels í dulfræðibókum síðari alda. Hér gæti verið
um skemmtilega tilviljun að ræða.