Skírnir - 01.09.1993, Page 128
430
TERRY GUNNELL
SKÍRNIR
hlýðum á Skírni tala og fylgjum honum á ferðum hans frá einum
stað til annars. Slíkur flutningur kvæðisins er óneitanlega nákom-
inn veruleika leiksviðsins.
Það mætti auðvitað halda fram að rödd milligöngumannsins
hljómi í lausamálsköflum Skírnismála: I flestum síðari tíma útgáf-
um kvæðisins er prentaður inngangur í óbundnu máli. Síðar rek-
umst við á stuttar málsgreinar milli erinda sem lýsa ferðum Skírn-
is til og frá Jötunheimum, og athugasemdir sem gefa til kynna
hver talar í viðkomandi erindi („Skírnir kvað“ o.s.frv.). Hér er
hins vegar ástæða til að kanna betur vitnisburð handritanna.
Hvað lausamálskaflana snertir má víða annars staðar í Konungs-
bók greina merki um að efnið hafi verið mótað af einhvers konar
ritstjóra. Kvæðunum virðist hafa verið raðað þannig upp að þau
mynduðu samhangandi frásögn. Inngangsorð fyrir mörgum
kvæðanna bera ennfremur merki um að vera skrifuð af ritstjóra
til skýringar fyrir væntanlega lesendur. Þetta er sérstaklega áber-
andi í síðari hluta Konungsbókar (Finnur Jónsson 1917, 16-36;
1926, 215-233). í þessu sambandi má geta þess að Gustav Lind-
blad hefur beitt málsögulegum rökum til að sanna að lausa-
málstextinn í Lokasennu sé yngri en texti sjálfs kvæðisins (Lind-
blad 1954, 286; 1980, 159 og 162).
Ýmsar kenningar hafa verið uppi um tilurð lausamálskaflanna
í Skírnismálum og öðrum goðakvæðum Eddu. Eins og áður sagði
telja sumir fræðimenn þá hafa komið í stað erinda sem lýstu rás
viðburða í þriðju persónu (mér virðist ólíklegt að þetta eigi við
um kvæðin undir ljóðahætti). Hugsanlegt er að lausamálskaflarn-
ir hafi komið í stað glataðra eða brottfelldra erinda sem lögð voru
í munn persóna en leiddu í ljós framvindu sögunnar (sjá Jón
Helgason 1971, II, 24; Lönnroth 1977, 169; og andsvar í Bibire
1986, 37). Þá kemur til greina að lausamálskaflarnir séu uppruna-
legir eða, eins og Wessén heldur fram, að þeir hafi komið í stað
annarra lausamálskafla sem voru breytilegir frá einum flutningi
kvæðisins til annars og því ekki skrifaðir upp af þeim sem söfn-
uðu kvæðunum saman (sjá Wessén 1946, 16, 18-20, 28; Steinsland
1991, 43). Engin þessara tilgátna virðist hins vegar sennileg þegar
litið er til Skírnismála.