Skírnir - 01.09.1993, Síða 160
462
SIGURÐUR A. MAGNÚSSON
SKÍRNIR
meþeifur). í reynd bæta þessar andstæður hvor aðra upp, og vís-
ast hefur Eskýlos látið slíka sátt koma fram í lok þríleiksins á
sama hátt og hann sætti andstæðurnar í Óresteiu.
Jobsbók
Jobsbók er talin meðal snilldarrita heimsbókmenntanna og Tenny-
son lávarður, lárviðarskáld Viktoríuskeiðsins, gekk meiraðsegja
svo langt að kalla hana „mikilfenglegasta ljóð að fornu og nýju“.
Bókin fjallar um vandamál böls og þjáningar. Hversvegna þjáist
réttlátur maður? En sé betur að gáð, fjallar verkið líka um merk-
ingu mannlífsins, eigindir guðdómsins og órannsakanlega vegi
hans í mannheimi. Verkið hefur verið nefnt „eftirrit lífsins einsog
það er“. Þó Jobsbók líkist að forminu grískum harmleik, er hún
tvímælalaust semískur Ijóðabálkur, einskonar hetjuljóð sálarinn-
ar, og lýsir linnulausri leit einlægs og heiðarlegs manns að tilgangi
bölsins. Ljóðabálkurinn er að meginefni samtöl Jobs, sem heldur
fram sakleysi sínu og deilir á Guð fyrir þjáningu sína, og vina
hans, sem eru fulltrúar hefðar og rétttrúnaðar. Lausnina finnur
Job að lokum í guðssamfélaginu (42:5).
Ekki er vitað með vissu hvenær Jobsbók var færð í letur. Sum-
ir fræðimenn telja það hafa verið á sjöundu öld fyrir Kristsburð,
en fleiri munu hallast að því, að ritið sé frá skeiðinu eftir herleið-
inguna, annaðhvort frá fimmtu eða fjórðu öld f.Kr., og er þá
nokkurnveginn samtíða Prómeþeifi. Ymsir fræðimenn telja Job
vera bókmenntalega sköpun, en aðrir líta svo á að hann sé sögu-
leg persóna sem átt hafi sér merkilega reynslu og orðið efni í ljóð
sem gengu manna á milli öldum saman þartil einhver meistari léði
þeim endanlegan búning í rituðu máli.
Á ljóðabálkinum eru augljósir hnökrar. Skýringin sem gefin
er á þjáningum Jobs í innganginum kemur ekki fyllilega heim við
það sem segir í megintextanum. Eins segir í eftirmálanum að
Drottinn hafi snúið við högum Jobs og gefið honum „allt, sem
hann hafði átt, tvöfalt aftur". Þetta virðist ríma illa við þá ósér-
drægu trú og traust á Guði sem Job staðhæfir í allri auðmýkt.
Vera má að höfundur hafi fundið sig knúinn til að láta þetta fljóta