Skírnir - 01.09.1993, Page 185
SKÍRNIR
VlTISLOGAR SJÓNVARPSINS
487
ljósi pólitískra skoðana sinna og noti það til þess að styrkja þær
(Fowles 1987:102). Um áhrif sjónvarpsins á stjórnmál almennt er
kannski minna vitað, en þótt maður vilji leyfa sér að halda að þau
séu nokkur er full mikil einföldun hjá Postman að segja að Ron-
ald Reagan hafi verið kosinn forseti Bandaríkjanna bara vegna
þess að hann gat leikið forseta.
Rannsóknir Stewart Hoover á kristilegum sjónvarpsstöðvum
og áhrifum þeirra eru mjög gagnlegar til að benda á rangan mál-
flutning Postmans í þessum efnum.7 Hoover segir meðal annars
að þeir sem horfi á þessar stöðvar séu mjög trúaðir fyrir og starfi í
trúarlegum söfnuðum. Bakgrunnur áhorfenda, uppeldi, menntun
og félagsleg staða skiptir þannig miklu um hvaða skilning þeir
leggja í það sem þeir sjá. Postman horfir framhjá þessum félags-
þáttum og telur að þar sem sín trúarlegu gildi samrýmist ekki
þeim boðskap sem fluttur er á skjánum, hljóti meginþorri áhorf-
enda slíkra stöðva í Bandaríkjunum að upplifa slíkt hið sama.8
Það er einnig rétt að benda á að trúboð án flókinnar guðfræði eru
engin nýmæli og hafa slíkar hreyfingar fylgt kristni frá örófi og
ekki hægt að kenna sjónvarpinu um tilvist þeirra (Fowles
1987:102).
Þótt segja megi að fréttaflutningur í sjónvarpi sé oft og tíðum
ómerkilegur og í litlu samhengi við daglegt líf þorra fólks þá gild-
ir það sama um dagblöð og bækur um sagnfræðileg efni, ef því er
að skipta. Dagblöð eru ekki síður ofurseld fjármagninu og ef
krafa fjármagnsins er skemmtun, eins og Postman heldur fram, þá
nær hún líka til blaðanna. Fréttaflutningur í sjónvarpi getur hvatt
fólk til aðgerða, öfugt við það sem Postman og Sigurður halda
fram. Það er nærtækast fyrir okkur að líta á Island í þessu sam-
7 Stewart M. Hoover, Mass Media Religion: Tbe Social Sources of the Electronic
Church (Newbury Park 1988).
8 Hér er um ákveðna þversögn að ræða hjá Postman og er þekkt úr marxískum
fræðum. Postman skýrir það ekki hvernig á því stendur að hann skuli ekki
vera eitt af fórnarlömbum sjónvarps, þ.e.a.s. hvernig hann öðlast þá gagnrýnu
sýn sem hann færir okkur í bókinni. Eg er þeirrar skoðunar að áhorfendur séu
gagnrýnir, þ.e. aðfinnslusamir, þegar þeir horfa á sjónvarp, en ekki þöglir
þiggjendur.