Skírnir - 01.09.1993, Page 228
530
KRISTJÁN ÁRNASON
SKÍRNIR
sofandi" endar á, undangengnum rímorðum „vari“ og „fjara", og eins
Ijær innrímið í kvæðinu „Ópið“ því hljóm sem verið er að lýsa - að vísu
ekki sérlega skerandi:
Hvaðan [...] neðan úr neyðinni?
það niðaði, kliðaði, ómaði skært, hvirflaði
úða fossins [...]
og síðar í sama kvæði:
[...] flæðir það
glóandi, eyðandi, græðandi
um æðar
Af þessum línum, sem og öðrum hér á undan, má sjá að Þorsteinn
beitir skáldskaparmáli sínu eins og sá sem valdið hefur og stendur á
gömlum merg í glímu sinni við nútímalegar tilvistarspurningar. Sterk
tengsl hans við fortíðina koma skýrt fram í orðfæri hans og kveðandi, og
það er engin tilviljun að skáldskapur hans skuli vera ríkur af vísunum í
fyrri skáld. Hér hefur áður verið minnst á vísun í þýðingu Stefáns Ólafs-
sonar, en hlutur Jónasar Hallgrímssonar er þó öllu meiri í bókinni, og
má þar nefna bæði línuna „vertu nú hraustur!“ í ljóðinu „Óp úr flóðinu“
og einkum þó kvæðið „Sólin heim“ sem má kallast vísun til kvæða
Jónasar frá upphafi til enda, þar sem rímorðin „snýr“ og „nýr“ hljóma
einhvers staðar baka til í huga lesandans, þótt aðeins hið síðarnefnda
heyrist í kvæði Þorsteins:
Ég horfi nýr
undir hönd
grasadrengs.
En nú sannast enn þau orð Parmenídesar að allar farir manna beri til
þess staðar sem lagt var upp frá, því við erum enn komin á slóðir
vorljóðsins sem bókin hófst á, er „birtuseiður" boðaði „annað vaknandi
vor“ sem þó fór ekki eitt saman og gengið var enn sem fyrr „til móts við
hetjur og söngva" sem nornir höfðu slöngvað um „dýrum óminnisvef“.
Og hver veit nema að lesandinn sé á einhvern hátt nýr eftir að hafa tekið
sér far með sæfaranum sofandi - eða sæfaranum vaknandi eins og hann
heitir héðan í frá - og horft með honum í allar áttir og einnig út að ystu
sjónarrönd. Og kannski hefur hann fundið til einhvers sem „svefnrofum
líkist“ og það jafnvel „drykklanga stund“, svo vitnað sé í orð annars
skálds.