Skírnir - 01.09.1993, Page 245
SKÍRNIR
ÞRJÁR SKÁLDASÖGUR
547
samskiptum skálds og bókmennta einskonar ástarhatur eins og í mörg-
um hjúskap sem lengi hefur staðið (Guðbergur talar líka um nauðsynina
á að „halda framhjá" skáldskapnum - t.d. með myndlist). Hann segir:
Stór hluti af sálarlífi mínu er í eðli sínu andsnúinn skáldskap: það
hatar hann í svipuðum mæli og það er rígbundið honum. (70)
Þetta ástarhatur er ekki sérviska Guðbergs - svo eitt dæmi sé tekið af
handahófi þá kvartar Thomas Mann sáran yfir ömurlegu lífi í listum í
bréfi til bróður síns Heinrichs (árið 1901): „Bókmenntirnar eru dauðinn
sjálfur. Aldrei get ég skilið hvernig maður getur látið þær drottna yfir sér
án þess að hata þær beisklega."8 Óþarfi vitanlega að mikla það fyrir sér
þótt úr ummælum skálda um listina megi lesa vissa ósamkvæmni. Guð-
bergur heldur því fram á einum stað að „maðurinn [sé] samkvæmur
sjálfum sér“ (96), en það er hann einmitt ekki, enda segir skömmu síðar:
„ósamkvæmni er eðli listar og listamanna“ (121). Þetta má allt til sanns
vegar færa: ungir menn verða helst að trúa á samkvæmnina, annars gætu
þeir lamast af skelfingu. Og ósamkvæmnin í niðrandi ummælum um
skáldskapinn heilaga getur svo verið önnur tegund sjálfsvarnar sem al-
þekkt er allt frá dögum hinnar „rómantísku íróníu“; menn vilja ekki láta
aðra koma að sér grátandi.
En hvað sem ósamkvæmni og ástarhatri líður, þá er langsamlega
sterkastur í listskýringu Guðbergs sá vilji skálds sem tengist einsemd
hans og sjálfshafningu: hann vill vera á helgum stað, hann vill vera á æðra
sviði, utan og ofar við meðöl heimsins og valdsins. Við finnum meira að
segja ávæning af þeirri hneigð, sem verið hefur sterkari á öðrum tímum
en nú, að sjá í bókmenntunum einskonar trúarbrögð, nýja kirkju. Lík-
ingamálið allt fær svip af trú: skáldskapurinn er „í fyrstu sár ómur af
öllu, síðan er honum varpað niður í gleymskunnar gröf, að því búnu fær
hann upprisu í orðum, ómurinn talar tungum" (224). Hið kristna drama
er orðið að hliðstæðu skáldskaparins. Sá sami skáldskapur vill gera að
sínu boðorðið um að ekki skaltu leggja nafn guðs þíns við hégóma: það
er látið svara til þess að skáld láti „hið nefnanlega" vera „eins lengi á neð-
anjarðarstigi og mögulegt er“ og aldrei koma fram öðru vísi en „dulbú-
ið“. Guðbergur sjálfur segist forðast að hrósa verki eftir sig eða hlusta á
hrós um þau - rétt eins og „innilega trúaður maður hrósar ekki guði sín-
um. Hann þarf hvorki að eiga trúbræður né ganga ásamt öðrum í helgi-
dóminn“ (172). Allt ber keim af prívattrúarbrögðum og kannski ósagðri
eftirsjá eftir þeim tíma þegar skáldskapurinn sat í helgum véum og var
ekki kominn í bland við markaðströllin og ærsli sem þeim fylgja.
8 Roman Karst. Thomas Mann. Munchen 1987, bls. 55.