Skírnir - 01.09.1993, Page 246
548
ÁRNI BERGMANN
SKÍRNIR
VI
Árið 1825 skrifar rússneska skáldið Alexandr Púshkín vini sínum
Vjazemskíj bréf. Vjazemskíj hefur skýrt skáldinu frá því að því miður
hafi minnisblöð Byrons glatast, en Púshkín, sem á yngri árum lærði
margt af stórskáldinu breska, segir enga ástæðu til að harma það: Byron
skriftaði fyrir okkur í kvæðum sínum án þess að gera sér grein fyrir því
sjálfur og það nægir:
Láttu skrílinn um forvitnina og taktu þér stöðu með snillingnum [...]
Lýðurinn les játningar, minnisblöð etc. af áfergju, vegna þess að í
lágkúru sinni gleðst hann yfir niðurlægingu hins háleita, veikleikum
hins volduga. Hann kann sér ekki læti hvenær sem hann finnur ein-
hvern viðbjóð. Hann er þá lítill karl rétt eins og við, viðbjóðslegur
eins og við! Því ljúgið þið, skíthælar: hann er smár og viðbjóðslegur
- en ekki eins og þið heldur með öðrum hætti!9
Hér er enn komið að þeirri gægjufíkn sem um var getið í upphafi
þessarar greinar - um leið og tekið var fram að í rauninni væru höfundar
skáldabókanna þriggja nokkuð svo á verði gagnvart hnýsni. En í bréfi
skáldsins rússneska er um leið komið að öðru - að lotningu fyrir skáld-
skapnum og þeim sem hann iðka. Við erum í þessu bréfi stödd í róman-
tískum tíma og þar eru bókmenntir svo sannarlega helgidómur: þær eru
köllun, skáldin eru guðs útvalin þjóð, þau sjá í alla heima, þau boða
dýpri skilning og mikinn fögnuð, en um leið eru þau harmkvælamenn
sem bera öðrum þyngri byrðar. Allt þýðir þetta að skáldin verði ekki
mæld sömu stiku og aðrir menn. Snillingatrúin er í algleymingi - og á svo
lengi eftir að vera: Tolstoj (sem sjálfur átti það til að efast stórlega um að
bókmenntir ættu rétt á sér) trúir einni frænku sinni fyrir því meðan hann
er að skrifa Onnu Karenínu (árið 1874) að hvað sem hann taki sér fyrir
hendur sannfærist hann um að „allur heimurinn farist ef ég hætti“.10
Þær skáldasögur sem hittust á prenti á síðasta almanaksári eru sem fyrr
segir hver annarri ólíkar að allri gerð og áherslum. Og þær eru - hver
með sínum hætti - í greinilegum fjarska frá þeirri afdráttarlausu upp-
hafningu skáldsins sem finna má í bréfum skáldanna rússnesku (og svo
ótal mörgum öðrum heimildum frá svipuðum tíma). En samt skal það
verða undir lokin hófsöm tillaga til alhæfingar að skáldabækurnar þrjár
standi allar undir merkjum einmitt þess skilnings að skáldskapurinn sé
með nokkrum hætti „heilög“ iðja. Það er ekki nema sjaldan spurt að því
9 A.S. Púshkín. Polnoje sobraníje sotsjineníj X. Moskva 1958, bls. 191-192.
10 Eikhenbám. O proze, bls. 84.