Skírnir - 01.09.1997, Page 218
492
MÁR JÓNSSON
SKÍRNIR
prenti með ljósmyndum menningarlegar vegahandbækur um ein-
stök héruð eða landið allt, fróðlegri og skemmtilegri en þær sem
til eru.
Það er göfugt markmið og verðug stefna, sem varla nokkur
andæfir, að sagnfræðingar ræki það hlutverk greinar sinnar „að
hjálpa fólki að víkka og dýpka sjálfsmynd sína“, en forðist að
vinna þeirra snúist „aðeins um rannsóknina sjálfa og stefni auk
þess í átt til sérhæfingar."6 En hér þarf að staldra við. Þetta er
ekki alveg svona einfalt. Alls er þörf - þótt vissulega fari fjarri að
allt sé jafn merkilegt. Það má ekki gerast að bara sé hugað að
áferð sagnfræðilegra texta. Eftir sem áður er nauðsynlegt að
stunda mjög sérhæfðar rannsóknir á býsna mörgu í íslenskri for-
tíð. Aukin almannatengsl breyta engu um það. Stílþrif ekki held-
ur. Fornleifar segja ekki múkk án ótrúlega smásmugulegrar
könnunar á því sem finnst í jörðu. Islendingasögurnar segja ekki
alla söguna án vandaðs samanburðar á stafkrókum, rithöndum og
stafsetningu í handritum. Skjöl segja fátt sé ekki búið að gefa þau
út eða gera yfir þau nothæfa og aðgengilega skrá.7 Menningarsaga
eftirstríðsáranna verður ekki skrifuð án ítarlegra viðtala við fjölda
manns af öllum stigum. Þetta eru hlutir sem taka tíma og þarf sér-
þekkingu til að sinna. Sú þekking verður ekki til nema sérhæft
fólk fái að einbeita sér svo árum skiptir við nokkurt fjárhagslegt
öryggi, helst í fullu starfi. Án svona vinnu gerist ekkert annað og
raunar er með ólíkindum hvað horft er í aurana þegar frumrann-
sóknir á íslenskri fortíð eru annars vegar, en fjöldi fólks er hins
vegar á fullum launum við hluti sem skila litlu ef nokkru til ís-
lenskrar menningar (í bönkum og sjoppum, á opinberum stofn-
unum og víðar) - fyrir utan nú það að starfsfólkið hefur engar
taugar til sinna verka og gleymir starfinu um leið og það gengur
út úr húsi. Vinnan er meðal en ekki markmið í sjálfu sér, hvað
6 Gunnar Karlsson, „Enn um sagnfræði og sannleika.“ Skírnir 168 (vor 1994),
bls. 203; Brynhildur Ingvarsdóttir, „Hvað er á seyði í sagnfræðinni? Erlendar
hræringar og íslenskir sagnfræðingar." Skírnir 170 (vor 1996), bls. 110.
7 Um síðasttalda atriðið má benda á tímabæra áminningu Einars Gunnars Pét-
urssonar, „Hugvekja við afhendingu fornbréfa.“ Bókahnútur brugðinn Ólöfu
Benediktsdóttur. Reykjavík 1997, bls. 26-29.