Skírnir - 01.09.1997, Page 253
SKÍRNIR
FRÁSÖGNIN í VERKUM ERRÓS
527
eiginlega popplist, eins og hún birtist í Ameríku hafi aldrei komið
til Evrópu, þó svo að þar megi finna einstaka listamenn sem í
verkum sínum nálgast á einn eða annan hátt fagurfræði popplist-
arinnar. Ástæður þess eru vafalítið margar. En það sem máli
skiptir í þessu sambandi er að sérhvert menningarsvæði, sérhver
þjóðmenning, listasagan, lífsstíllinn og aðrir samfélagshættir ala af
sér sérstæða list. Menningin á hverjum stað umbreytir ávallt því
myndmáli sem viðkomandi listamenn kunna að tileinka sér á
hverjum tíma.
Þótt Evrópa og Bandaríkin væru að mörgu leyti skyld menn-
ingar- og neyslusamfélög sem við fyrstu sýn ættu að geta alið af
sér sambærileg listaverk, þá var það sérstaklega tvennt sem gerði
gæfumuninn: Fyrst er að nefna að í Evrópu var til staðar rótgróin
listmenning, sem átti sér langa sögu og virkar oft líkt og listræn
og menningarleg skilvinda. I annan stað getum við ekki horft
fram hjá því að Evrópumenn höfðu þurft að þola hörmungar
seinni heimsstyrjaldarinnar, en flestir popplistamenn ólust ein-
mitt upp á árunum frá 1930-1950. Fyrir Evrópumönnum gat
raunveruleikinn aldrei verið jafn fjarlægur og yfirborðskenndur
og hann birtist oftast í verkum amerísku popparanna. Evrópsku
listamennirnir voru því á margan hátt ábyrgari gagnvart sögunni
og menningunni. Á meðan amerísku listamennirnir létu sér nægja
að endurspegla neyslusamfélagið, oftast afstöðulaust, voru
kollegar þeirra og jafnaldrar í Evrópu mun pólitískari og meðvit-
aðri um stöðu sína og hlutverk í samfélaginu og listasögunni. Á
þessum árum varð frönskum gagnrýnendum t.a.m. tíðrætt um
„hversdagslega goðafræði" á meðan að Ameríkanarnir lögðu
áherslu á bein tengsl við hversdagsleikann.
Vert er að hafa þetta í huga þegar við lítum nánar á hóp evr-
ópskra listamanna sem snemma fékk samheitið La figuration
narrative, fígúratífa frásagnarmálverkið, en meðal þessara lista-
manna voru Monory (franskur), Adami (ítalskur), Klasen
(þýskur), Telemaque (frá Haítí), Rancillac (franskur), Jan Voss
(þýskur), Arroyo (spænskur) og Erró. Þessi hópur var dyggilega
studdur af gagnrýnendum á borð við Alain Jouffroy og Gerard
Gassiot Talabot, en sá síðarnefndi skipulagði fyrstu sýningu
hópsins og gaf honum nafn.