Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Síða 87
Sérkenni kristindómsins
manns, sem snýst í kringum hverful efnisgæði og nautnir, rýmka svo
hann fái útsýn yfir hin sönnu verðmæti lífsins og fullnægingu allra óska í
bræðralagi mannanna. Hvort tveggja er fólgið í því að láta Guð ráða. Sá
sem iðrast, mun einnig finna, að þær sakir, sem hann átti við aðra, eru
fánýtar, því að hann hefur öðlast nýtt mat á gildi allra hluta, og sér þá alla
í nýju ljósi. Það er sjálfselskan, sem stendur í vegi þess, að menn fyrirgefi
hver öðrum, en þegar iðrunin hefur kennt manni að meta sinn eigin
óverðleik og finna til óumræðilegrar nálægðar Guðs, þá munu þær sakir,
sem sjálfselskan taldi fram, verða harla léttvægar fundnar.
Og nú mun vera næst að spyrja: I hverju er þá fyrirgefning Guðs
fólgin? Svarið er stutt: Hún er það, að Guð hefur aldrei verið reiður
mönnunum, heldur er kærleikur hans alltaf óbreyttur, alltaf reiðubúinn til
að veita mönnum alla þá hjálp til sjálfsbetrunar, sem þeir eru fúsir og
færir til að taka á móti. M.ö.o.: Það er ekki Guð, sem breytist. Hann er
alltaf samur og jafn, einber elska. Elskan er eðli hans, hann getur ekki
verið annað. Þetta er sá mikli munur, sem er á fyrirgefningu, eins og
Jesús talar um hana, og fyrirgefningu eða réttlætingu eða friðþægingu eða
hvað sem guðfræðingar liðinna alda allt frá Páli hafa nefnt það, sem
breytti afstöðu Guðs gagnvart mönnunum. Guð er hinn óbreytanlegi
kærleikur.
En hvað er um þá, sem verða að borga hinn síðasta eyri? Hvað er um
lastmælin gegn heilögum anda, sem ekki verða fyrirgefin um aldur? (Mk.
3,29). Því mætti svara þannig: Það er ekki Guð, sem neitar þeim um
fyrirgefningu, heldur mennirnir, sem neita að snúa sér til Guðs, neita að
iðrast og fyrirgefa. Guð, sem hinn alvaldi kærleikur, getur engan
þvingað, því ef hann gerði það, hætti hann að vera kærleikur (Aulén,
256). En á móti því má aftur spyrja: Ef Guð er hinn alvaldi kærleikur, þá
getur hann ekki þolað, að nokkur glatist. Hver mannssál er honum
óendanlega dýrmæt. Vér verðum því að treysta því, að einnig til þeirra
nái kærleikur Guðs að lokum, og laði fram hinn guðlega neista, sem ekki
getur dáið. Svo framarlega sem Guð er Guð lífsins, en syndin afl dauðans,
þá hlýtur guðlega aflið að sigra, en syndin að líða undir lok, því hún
hefur dauðann búandi í sjálfri sér.
Þegar svona er litið á fyrirgefninguna, þá hverfa með því öll
vandkvæði um það, hvernig eigi að samræma fyrirgefningu og réttlæti,
eða hvernig eigi að svara þeirri mótbáru, að fyrirgefningarvissan verði
að siðferðilegu deyfingarlyfi. „Fyrirgefning Guðs er vissulega ekki neinn
svæfill, sem maðurinn geti lagst til hvíldar á — hún er vissulega mjög
róandi, en hún er í senn hin sterkasta hvatning” (Aulén, 262). Hún er
einmitt hjálp til siðferðilegrar fullkomnunar, og fullnæging hins æðsta
réttlætis: að stuðla að því að hið besta fái notið sín í hverjum manni.
Þess var getið hér að framan, að fyrirgefningin væri komin undir því,
að maðurinn vildi hagnýta sér hana, með iðrun eða fyrirgefningar-
hugarfari. Það mætti líka orða það svo, að maðurinn þurfi að stilla sjálfan
sig í samræmi við eðli hins guðlega kærleika, til þess að hann geti náð að
verka á hann. Og sú skýring gerir skiljanlegra, hvernig fyrirgefningin
85