Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Qupperneq 88
Bjöm Magnússon
verkar. Það er nefnilega fjarri því, að byrjunin, frumkvæðið, sé hjá
manninum. Það er guðlegi krafturinn, sem laðar, eins og óskynjanleg
orka, og að nokkru leyti íbúandi í manninum sjálfum, og kallar fram
iðrunina. Það er þessi sannleikur, sem felst í hinni gömlu kenningu um
réttlætingu af náðinni einni saman (gratia sola). Þennan þátt í afstöðu
Guðs til mannsins munum vér nú taka til athugunar.
b) Náð
í guðspjöllunum er ekki talað um náð Guðs með beinum orðum nema á
örfáum stöðum (Lk. 2,40,52; 1,30; 4,22. Jóh. 1,14.16,17). En hugmyndin
um hinn náðuga Guð er þar engu að síður, ekki síst í boðskap Jesú um
himneska föðurinn, sem lætur sól sína renna upp yfir vonda og góða og
rigna yfir réttláta og rangláta. Allar gjafir hans til mannanna eru af
óverðskulduðum kærleika. í bréfunum er aftur á móti víða talað um náð
Guðs, sérstaklega hjá Páli, og má segja, að náðin sé grunntónninn í allri
kenningu hans um Guð. Fyrir náð er hann það sem hann er, og náð hans
er honum nægileg (I. Kor. 15,10. Gal. 1,15; 2,9. II. Kor. 12,9). Það er
náðin, sem kemur í staðinn fyrir lögmálið til réttlætingar manninum (Ró.
6,14; 11,6). Og náðin veitir einnig sérstakar gjafir, náðargjafir, sem
hinum trúuðu hlotnast fyrir kraft andans (I. Kor. 12). Fyrir Páli táknar
náðin hina frjálsu, óverðskulduðu elsku Guðs, sem veitir gjafir sínar, og
þá sérstaklega gjöf réttlætingarinnar, án þess mennirnir eigi kröfu til
þess, af einskærri gæsku. Þetta er sú merking, sem orðið hefur yfirleitt í
Nýja testamentinu.
En síðar létu menn sér ekki nægja þá einföldu skýringu. Það er þó ekki
fyrr en í vestur-kristninni, að náðin verður mönnum sérstakt um-
hugsunarefni. Tertullianus verður þar einna fyrstur, og leggur grund-
völlinn að þeirri kenningu um náðina, sem síðar var ríkjandi lítið breytt.
Hann leit á náðina sem innblástur (inspiratio) sérstakrar orku, sem
næstum tók á sig efnislegt form í kenningu hans (vis divinae gratiae,
náðar „substantia”). Þessi orka var síðan búandi í manninum, og varnaði
honum frá að syndga (donum perseverantiae). Ágústínus hélt kenningu
hans áfram, og hélt því fram, að náðin veitti ekki aðeins kraft til að gera
hið góða, heldur einnig að vilja það. Hún væri ómótstæðilegt afl, sem Guð
beitti til að framkvæma vilja sinn er hann fyrirhugaði suma til frelsunar,
en annars væri mannkynið „massa perditionis”. En þessi kenning lenti í
mótsögn við kenningu kirkjunnar um verðleika góðra verka, og voru
gerðar margar tilraunir til að eyða því ósamræmi, með því að gera vilja
mannsins að nokkru gildandi. Pelagius gekk þar lengst, er hann kenndi
algjört frjálsræði viljans. Sú kenning gat ekki haldið velli, en
Semipelagianisminn, sem hélt fram samstarfi náðar Guðs og vilja
mannsins, varð lífsseigari, enda þótt hann fengi ekki fulla viðurkenningu
kirkjunnar.
Það er fyrst með siðbótinni, að nokkuð nálgast aftur hið upprunalega
náðarhugtak Nýja testamentisins. Melanchton féll í Loci sínum frá 1521
alveg ffá kenningunni um náðina sem utanaðkomandi kraft, en leit á hana
86