Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Side 103
Sérkenni kristindómsins
b) Eilíft líf sem ódauðleiki
Aftur er það greinilegt, að þar sem Páll talar um eilíft líf, þá á hann við
lífið eftir líkamsdauðann, hið ódauðlega líf. Orðið er notað í mótsetningu
við dauðann, sem að vísu táknar ekki aðeins líkamsdauðann, heldur „Laun
syndarinnar”. Er því einnig fólgið í orðinu hjálpræðið, en það er einmitt
það sama sem lífið eilífa, ódauðlega. Það sést glöggt í I. Korintubréfi
15,12nn. þar sem Páll undirstrikar það mjög ákveðið, að „ef dauðir rísa
ekki upp, er Kristur ekki heldur upprisinn; en ef Kristur er ekki
upprisinn, er trú yðar fánýt, þér eruð þá enn í syndum yðar, og jafnframt
einnig þeir glataðir, sem sofnaðir eru í trú á Krist”. Samkvæmt þessu er
eilíft líf alltaf hjá Páli = ódauðleiki, enda þótt það feli í sér hjálpræðið,
því að án dauðleika er hjálpræðið ekki til (Sjá Ró. 6,23, 5,21, 2,7, Gal.
6,8. sbr. Magnús Jónsson: „Dauði Krists er í Páls augum alveg gagnlaus
án upprisunnar”, Páll post. bls. 94). Að vísu er röksemdafærsla Páls ekki
hugsuð alveg á þessa lund, heldur er honum upprisa Krists fyrir mestu, en
hún bindur þetta í sér, því að upprisa Krists stendur og fellur með
upprisu — eða ódauðleik — allra manna.
Hugmyndir Páls um ódauðleikann koma annars mjög skýrt fram víða
annars staðar, og færir hann bæði rök fyrir honum, út frá upprisu Krists,
og skýrir frá hugmyndum sínum um framhaldslífið (I. Þess. 4,13nn, I.
Korintubréfi 15,12.nn, 35 nn, II. Kor. 4,14 nn). Af röksemdarleiðslu Páls
í I. Kor. 15, mætti ætla, að hann teldi ekki hafa verið um ódauðleika að
ræða á undan upprisu Krists, né heldur næði hún til annarra en þeirra,
sem trúa á Krist, þar sem hann talar um, að Kristur sé risinn upp frá
dauðum sem frumgróði þeirra, sem sofnaðir eru, hann sé hinn annar
Adam, sem sé höfundur nýs mannkyns, og allir muni „lífgaðir verða fyrir
samfélag sitt við hinn Smurða. En sérhver í sinni röð: Kristur sem
frumgróðinn. Því næst þeir sem hinum Smurða tilheyra til komu hans”
(vv. 12.-28). En einmitt þessi síðustu orð: „við komu hans” og það sem á
eftir kemur, sýnir, að fyrir Páli táknar upprisan ekki sama sem ódauðleiki
almennt, þótt hún vitanlega feli hann í sér, heldur væntir hann
upprisunnar við endi heims, sem hann býst við mjög bráðlega, jafnvel
framan af að sér lifandi (I. Þess. 4,15nn). Þetta sýnir, að ekki má rugla
saman orðum Páls um eilíft líf eða upprisu og hugmyndum síðari tíma um
ódauðleika, sem eru runnar frá grískri hugsun, enda þótt hvort tveggja
feli í sér ódauðleika eða framhaldslíf mannsins.
Hugmyndir Páls um framhaldslífið eru annars mótaðar af hinum
gyðinglegum hugmyndum samtíðar hans, og getur hann ekki, frekar en
aðrir gyðingar, gert sér hugmyndir um framhaldslífið öðru vísi en
bundið við líkamann. En að því leyti bregður hann út frá hinni einföldu
efnishyggju samtíðarlanda sinna, að hann telur hold og blóð ekki geta erft
guðsríki, heldur muni líkamarnir umbreytast, verða andlegir líkamar
(sóma pneumatikon), í stað náttúrlegra eða „sálarlegra” (Psychikon) (I.
Kor. 15,50 og 44) Það er í fullu samræmi við það, að hann skýrir frá
upprisu Jesú sem birtingu hans eftir dauðann, og telur þar sem hliðstæðu
101