Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.1993, Page 151
Sérkenni kristindómsins
verkun guðsandans í manninum. „Það er ekki til nema ein sönn
siðgæðishvöt, sú, að maðurinn kunni sjálfur að meta gildi siðgæðisins,
gleðin yfir hinu góða” (Kirn, bls. 22).
Siðgæðiskröfur Jesú mæta hér ríkri þörf í hugum núlifandi kynslóðar.
„Hinn besti af þeim góðu eiginleikum sem einkenna hina vaxandi kynslóð,
er raunhyggja hennar og hreinskilni í meðferð allra siðgæðismála.
Kirkjan verður að mæta henni í því, sem hún á best í fari sínu. Hið eina
valdboð, sem með réttu er hægt að tileinka nokkrum siðakröfum eða
meginreglum, er það, að þær svari í sannleika til hinna dýpstu og
sönnustu þarfa mannsins” (Barry, bls. 2). Þetta frjálsa siðgæði er hið eina,
sem samræmst getur kröfum Jesú um hreinleika hugarfarsins. Það er ekki
nóg, að viðurkenna að grundvöllur siðgæðisins liggi í hugarfari mannsins,
og reyna þó að lifa siðlega með því að hlýða boðum, sem maður myndi
ekki leggja fúslega á sig sjálfur. „Það er nýtt hjá Jesú, að hann ræðst á
þessa siðspillingu sem innri tvöfeldni eða hræsni” (Herrmann: Ethik, bls.
151). Þetta var einmitt réttlæti fræðimannanna og Faríseanna. Siðgæðis-
hugsjón guðsríkisins er andstæða þess: hún er sá heilsteypti persónuleiki,
sem gerir sjálfkrafa það, sem rétt er, sem hefur lögmál Guðs skráð í eigin
brjósti, og lætur allar óskir sínar og fýsnir stjórnast af því, þannig, að í
vilja hans ráði guðsviljinn öllu. Hún felur þannig í sér, að maðurinn gefi
sig allan Guði á vald í frjálsu siðgæði („die völlige Hingabe an Gott in
sittlicher selbstándigkeit”, Herrmann, ibid. bls. 147). Þetta gæti virst
mótsögn í sjálfu sér, en er þó ekki því einmitt þegar maðurinn lætur
guðsviljann ráða, þá er hann næst sínu sanna eðli, þá er það hið sannasta
og besta í honum sjálfum, sem ræður. Og í einföldustu mynd sinni eru
siðakröfur Jesú allar fólgnar í þessu: að maðurinn láti hið sannasta og
besta í sér njóta sín. Raunskyggni hans á hið góða í manninum gerði
honum kleift að setja kröfur sínar fram svo djarflega, svo órafjarri því,
sem venjulegum mönnum finnst á valdi dauðlegra manna, og svo frjálst
við öll boð og bönn, að mörgum þeim, sem verið hafa siðgæðisleiðtogar
mannkynsins áður og síðan, mundi þykja slíkt nálgast upplausn alls
siðgæðis. En Jesús hafði dirfsku til að tefla á það tæpa vað. Hann treysti
Guði svo skilyrðislaust, og þess vegna líka anda hans í mönnunum, að
hann þorði að samneyta syndurum og skækjum, og kveða upp úr með
það, að það fólk myndi verða á undan þeim inn í guðsríkið, sem verið
höfðu verðir hins strangasta siðgæðis í landinu. Hann þorði að senda burt
hórseku konuna, sem siðgæðisverðir lögmálsins voru reiðubúnir að grýta,
með þessum orðum: „Ég sakfelli þig ekki heldur. Far þú, syndga ekki
framar” (Jóh. 8,11).
Með þessu er í raun og veru svarað þeim mótbárum, sem fram koma
gegn hinu frjálsa siðgæði guðsríkisins, sem byggt er á hinum siðgóða vilja
mannsins einum saman, en ekki á boðum og bönnum, sem maðurinn
finnur til sem ytri þvingunar. Þó skal vikið nokkuð að hinum helstu
þeirra, og sýnt fram á, hvernig siðakröfur Jesú mæta þeim mótbárum.
Fyrst skal nefna þá mótbáru, að það siðgæði, sem byggt er á innra
siðaskyni mannsins, en ekki á ytri lögmálsboðum, sé ekkert annað en
149