Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 17
16
breskur, öld breska heimsveldisins.18 Á köflum vísa Konur einmitt aftur
fyrir sig í Viktoríutímann, en í fyrstu lýsingunni á íbúð Emils kemur fram
hvernig hún „virtist á sífelldu flökti milli heima: nútímalegs, ópersónulegs
mínímalisma, járns og sléttra flata, yfir í viktoríanskan íburð flúrs og gyll-
inga“ (k 12).19 Því má halda fram að fjármálavæðing íslenska hagkerfisins
hafi einmitt farið eftir amerískri forskrift og fylgi því Bandaríkjunum inn
í svanasöng fjármálavæðingar áður en hringurinn líður undir lok. Eva er
enda enda fædd og uppalin í Bandaríkjunum og bandarískir yfirmenn eru
í lykilhlutverki við að tæla hana til hinnar afdrifaríku samningsgerðar við
bankann. „Flökt“ Kvenna milli breska hringsins á síð-Viktoríutímanum og
þess bandaríska í samtímanum gefur því til kynna eins konar kontrapunkt
milli endaloka þessara tveggja árstíðahringja, því rétt eins og síðustu ára-
tugir hafa einkennst af fjármálavæðingu og tilheyrandi kreppum, þá var
Bretland á seinni hluta nítjándu aldar endurtekið í greipum fjármálalegs
óstöðuleika sem var fyrirferðarmikill í skáldskap og bókmenntum tíma-
bilsins.20 Heimsendaþemað sem einkennir fleiri verk Steinars Braga tekur
því í Konum á sig mynd sem er bæði raunsæislegri og umhugsunarverðari
frá sögulegu sjónarhorni; endalokin eru ekki biblíuleg eða frumspekileg
heldur vísar á það „haust kerfisins“ sem ljóðskáldið og bókmenntafræð-
ingurinn Joshua Clover greinir í vestrænum samtímaskáldskap með vísun
í kenningar Arrighis.21
18 Samkvæmt Arrighi var fyrsti kerfisbundni hringur kapítalískrar auðsöfnunar
(„systemic cycle of accumulation“) undir forræði ítölsku borgríkjanna, annar
Hollands, sá þriðji Bretlands, og sá fjórði Bandaríkjanna. Sjá The Long Twentieth
Century. Money, Power, and the origins of our Times (London: Verso, 1994).
19 Fjallað hefur verið um tengsl Kvenna við hugarheim Viktoríutímans í BA-ritgerð
við Háskóla Íslands. Sjá Örn Orri Ólafsson, „Karlmaður Viktoríutímabilsins snýr
aftur. Krufning hryllingsins í Konum eftir Steinar Braga“ (Ritgerð til BA-prófs í
almennri bókmennafræði, maí 2013).
20 Eitt einkenni á skáldskap Viktoríutímans var meðvitundin um óstöðuleika skulda-
drifins hagkerfis og angist vegna skorts þess á jarðtengingu, angist sem ágerðist
eftir því sem breska hagkerfið virtist æ ofurseldara duttlungum hlutabréfamark-
aða, spákaupmennsku, og efnahagsbólum. Enskir skáldsagnahöfundar á borð við
dickens, Thackeray, Trollope og Eliot tókust beint og óbeint á við þennan ang-
istarfulla veruleika í verkum sínum. dickens skopstældi fjármálabólur á sinn ýkta
hátt og líkti við „farsóttir“ í Little Dorrit sem út kom árið 1855 (Oxford: Oxford
University Press, 2012); sjá kafla 13 í seinni hluta bókarinnar, „The Progress of an
Epidemic“. Anthony Trollope skapaði fjármálaspekúlantinn Augustus Melmotte
og sagði frá skammvinnum frama hans í breskum stjórnmálum í The Way We Live
Now frá 1875 (Hertfordshire: Wordsworth, 1995).
21 Sjá Joshua Clover, „Autumn of the System. Poetry and Finance Capital“, JNT:
ViðaR ÞoRsteinsson