Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 94
93
sem les á einn eða annan hátt. Þá skiptir nokkru hversu gott lesefnið er;
það þarf að minnsta kosti að falla að smekk þess sem les ef tilfærsla á að
geta orðið. Svo virðist sem smásögur og metsölubækur gefi sérstaklega
góða raun í þessu tilliti.25 Hér verður greint frá vísbendingum um tilfærslu
þátttakenda könnunarinnar inn í frásagnarheim „Grimmdar“. Auk þess
verða gefin dæmi um hugarlestur þeirra sem lásu og rætt um hugsanleg
áhrif frá umfjöllun fjölmiðla um atburði líðandi stundar og hvernig tiltekin
gerð fréttaflutnings virðist hafa bein áhrif á lestur, samlíðan og tilfærslu
þeirra sem tóku þátt í könnuninni.26 Tekið skal fram að samlíðan er hér
skilgreind sem ,það að finna til þess sem aðrir finna til‘.27
„Grimmd“ fjallar um holgóma dreng sem lendir í einelti. Hún hefst
á þessum orðum: „Hann valhoppaði yfir hnútótta móa upp á lyngþúfur
og ofan í grasdokkir, ýmist beint áfram eða ögn til hliðar og hundur elti
hann.“28 drengurinn er glaður þar til hann mætir kvölurum sínum, börn-
um sem fara að hrella hann. Eftir að hafa þolað háðsglósur frá börnunum
fær drengurinn útrás fyrir vonbrigði sín með því að ráðast á hundinn.
Þegar svör þeirra sem lásu söguna „Grimmd“ voru könnuð var merki-
legasta niðurstaðan að tilfærsla þátttakenda varð á sama stað í sögunni hjá
meirihluta þeirra sem á annað borð sökktu sér í hana.
Tilfærsluna má ráða af því hvernig þátttakendur brugðust við fyrstu
hlutum sögunnar sem fyrir þá voru lagðir; hvernig þeir lýstu eigin upp-
lifun af atburðum og hvaða orð urðu fyrir valinu í lýsingum, en einnig
skráði rannsakandi hjá sér atriði á borð við hvort lesið væri hægt eða hratt,
hvort staldrað væri óvenjulega lengi eða stutt við tiltekið spjald eða hvort
breytinga yrði vart í líkamstjáningu (raddblæ og svipbrigðum) þátttakenda.
25 M. C. Green og T. C Brock., „The role of transportation in the persuasiveness of
public narratives“, Journal of Personality and Social Psychology 5/2000, bls. 701–721,
hér bls. 701.
26 M. C. Green og fleiri hafa rannsakað sérstaklega fylgni á milli tilfærslu og þess að
njóta frásagnar, og komust að raun um að fylgnin er ansi mikil eða á bilinu r = .60 - r
= .77, sjá M.C. Green, T. C. Brock og Geoff F. Kaufman, „Understanding Media
Enjoyment: The Role of Transportion into Narrative Worlds“, Communication
Theory 4/2004, bls. 311–327, hér bls. 315. Í rannsókninni sem hér var gerð voru
þátttakendur spurðir að því í lokin hvort þeir hefðu notið sögunnar og voru nið-
urstöður áþekkar og hjá Green og félögum; þeir sem svöruðu játandi voru líklegri
til að hafa „færst til“ en þeir sem sögðust ekki hafa notið frásagnarinnar.
27 Sjá t.d. Claus Lamm og Tania Singer, „The role of anterior insular cortex in social
emotions“, Brain Structure & Function, 5–6/2010, bls. 579–591, hér bls. 580.
28 Halldór Stefánsson, „Grimmd“, bls. 362–365, hér bls. 362. Eftirleiðis verður vísað
til sögunnar með blaðsíðutali einu í sviga.
„MéR FANST EG FiNNA TiL“