Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 230
229
skýra með því að þjóð sem samanstóð af óviðjafnanlegum og einstökum
persónuleikum hafi streist á móti stöðugum innri og ytri þrýstingi smá-
bæjarins, sem hélt aftur af einstaklingnum. Þetta skapaði spennuþrungið
andrúmsloft þar sem hinum veikari var haldið niðri en hinir sterku voru
eggjaðir til að sanna sig af ástríðu. Einmitt þess vegna náði það sem kalla
má – án þess að við getum skilgreint það nánar – hið „sammannlega“ í
andlegri þróun mannsins að blómstra í Aþenu. Hér er því haldið fram að
eftirfarandi fullyrðing, sem byggir á þessu samhengi, hafi hlutlægt og
sögulegt gildi: inntak og form lífsins í víðasta og almennasta skilningi er
náskylt því sem er tengdast einstaklingnum. Sviðin eiga sér sameiginlega
forsögu en einnig sameiginlegan óvin í þröngum lífsformum og hópum
sem eru í varnarstöðu gagnvart hinu víðtæka og almenna fyrir utan, en
einnig gagnvart hreyfanleika og tilvist einstaklinga innan hópsins. Á tímum
lénsskipulagsins var „frjáls“ maður sá sem féll undir almenn landslög,
þ.e.a.s. undir lög og reglur stærstu samfélagseiningarinnar, sá var aftur á
móti ófrjáls sem sótti rétt sinn aðeins til þrengra umdæmis lénsherrans en
var haldið utan hinnar stærri einingar. Á sama hátt er stórborgarbúi okkar
tíma „frjáls“ í andlegum og fáguðum skilningi, ólíkt smásálarhættinum og
fordómunum sem þrengja að íbúa smábæjarins. Ástæðan er sú að menn
skynja áhrif fáskiptninnar og skeytingarleysisins, andlegra lífsskilyrða
stærri þjóðfélagseininga, á sjálfstæði einstaklingsins hvergi sterkar en í
mannþröng stórborgarinnar, vegna þess að líkamleg nálægð og þrengsli
gera andlega fjarlægðina áþreifanlega. Þegar mönnum, við tilteknar
aðstæður, finnst þeir hvergi eins einir og yfirgefnir og einmitt í mann-
þröng stórborgarinnar er það augljóslega aðeins hin hlið þessa frelsis, því
hvorki í þessu tilviki né öðrum er nauðsynlegt að frelsi mannsins speglist í
tilfinningalífi hans sem vellíðan. Það eru ekki aðeins stærð umdæmisins og
fjöldi íbúanna sem hafa gert stórborgina að miðstöð frelsisins, vegna þess
að stækkun samfélagseiningarinnar og hið einstaklingsbundna, innra og
ytra frelsi hafa farið saman í heimssögunni, heldur hafa stórborgirnar einn-
ig teygt sig út fyrir þetta víða umdæmi og orðið miðstöðvar heimsborgara-
menningar. Sjóndeildarhringur borgarinnar stækkar á sambærilegan hátt
og í auðsöfnun, en þegar ákveðinni upphæð er náð hneigist auðurinn til að
vaxa æ hraðar og líkt og af sjálfu sér. Á sama hátt aukast efnahagsleg, pers-
ónuleg og andleg tengsl innan borgarinnar, ímyndað landsvæði hennar
þenst út líkt og af rúmfræðilegum þunga þegar ákveðnu marki er náð.
Sérhver útvíkkun hennar verður að skrefi, ekki í átt að sambærilegri heldur
STÓRBORGiR OG ANdLEGT LÍF