Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 168
167
Verkfærin, sem setja mörk um hver maður getur verið í þessum
miðli, eru fyrir okkur tákn um þær fyrirbærafræðilegu takmarkanir
sem sjálfsmynd okkar er sett af pólitísku og félagslegu samhengi
nettengds þjóðfélags sem gerir slíka prófíla mögulega. Það er einnig
ljóst að rómantískar hugmyndir um að sýndarveruleikaprófíll gefi
okkur frelsi í netheimum frá áreiti og vanda hversdagsins eru jafn-
miklar tálsýnir og skuggarnir í helli Platons.18
Annar lykilþáttur í áhrifum samfélagsmiðla er, eins og Thumin bendir
á, að „markaðshagsmunir ramma inn sjálfstjáninguna og fagurfræðina,
siðferðilegar og pólitískar ákvarðanir eru teknar af öðrum en þeim sem
tjáir sig, rétt eins og í annarri tegund sjálfstjáningar”.19 Eins og hún segir
á þetta auðvitað líka við önnur form sjálfstjáningar. Til dæmis eru æviskrif
sem markaðsvara vel þekkt fyrirbæri, eins og sjálfsævisögur fræga fólksins
sem gjarnan fylla metsölulista eru gott dæmi um. En umfang sjálfstján-
ingar á samfélagsmiðlum er af áður óþekktri stærð, bæði þegar litið er
til fjölda notenda og tíðni notkunar, svo markaðsmöguleikarnir virðast
ótæmandi. Vandinn þarna snýr líka að varðveislu einkalífs, með hvaða
hætti fyrirtæki geta notað sér þær upplýsingar sem við gefum, því þrátt
fyrir ýmiss konar stillingar á síðunum, t.d. með því að veita aðeins ákveðn-
um hópi aðgang að myndum, þá er hættan á sjálfsafhjúpun gríðarleg.
Sjálfstjáningin sem fer þarna fram er ávallt á mörkum þess sem er opinbert
og einkalegt í netheimum, þar sem slíkar aðgreiningar eru ávallt óljósar.
boyd og Marwick benda á að einkalíf og opinberun hafi sem félagsleg fyr-
irbæri ávallt verið undir áhrifum af því hvað er „mögulegt og félagslega
viðeigandi. Til skamms tíma var einkalífi tekið sem sjálfsögðum hlut því
aðstæður gerðu það auðveldara að deila því ekki með öðrum en að deila
því. Samfélagsmiðlar hafa breytt þessari jöfnu.“20
Sjálfsævisöguleg skrif hafa að sjálfsögðu alltaf þurft að eiga við mörk
hins einkalega og opinbera, stundum hafa þau ógnað félagslegum hefðum
18 david Kreps, „My social networking profile: copy, resemblance or simulacrum? A
poststructuralist interpretation of social information systems“, European Journal
of Information Systems (2010) 19, 104–115, bls. 112.
19 Thumin, Self-representation and Digital Culture, bls. 142.
20 danah boyd and Alice Marwick, „Social Privacy in Networked Publics: Teens’
attitudes, practices, and strategies,“ A Decade in Internet Time. Symposium on the
Dynamics of Internet and Society, sjá http://papers.ssrn.com/sol3/papers.cfm?abst-
ract_id=1925128.
FRÁSÖGN ÁN GLEyMSKU OG dAUðA