Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 190
189
eitt og eitt hús sé rifið eða endurbyggt, en þeir mega alls ekki teikna
hús og enn þá síður skipuleggja ný hverfi. Þeir eiga alltaf að koma
eftirá. Þeir verða að sætta sig við þetta hlutverk.18
Þessi orð eru til marks um gróskuna sem hlaupin er í fagið. Um þessar
mundir höfðu fræðimenn á borð við Matthías Viðar áhrif langt út fyrir
það þjónustuhlutverk sem skáldið og rithöfundurinn ætlaðist til af þeim.
En sjálfur var Þórarinn, líkt og margir af helstu höfundum á þessum tíma,
að skrifa sögur á þeim frjóu mærum milli frásagna og fræða sem opnuðust
með tilkomu nútímabókmenntafræði.
Einkennilegt að allt þetta líf skuli hafa borið dauðann í sér. En slík-
ar voru innbyggðar forsendur nútímabókmenntafræði, að hún hlaut að
lokum að snúast gegn bókmenntunum sjálfum. Hvernig mátti það vera?
Upplausn
Eftir að deigla formalisma og framúrstefnu tók að kólna urðu Víktori
Shklovskí æ hugleiknari samsvaranir þessara stefna við barokk og
rokókkó.19 Í frægri grein frá byltingarárinu 1917, „Listin sem tækni“,20
hafði Shklovskí látið öxina vaða í lóðrétt stigveldi ríkjandi fagurfræði sem
að stofninum til var sprottin af þýskri hughyggju og húmanisma 19. aldar.
Áratug síðar gekk félagi hans meðal rússneskra formalista, Júrí Tynjanov,
skrefinu lengra; í „O líteratúrnoj evoljútsíí “ (Um bókmenntalega þróun,
1927) leiddi hann í ljós hvernig ólíkir geirar menningarinnar lúta ekki
síður lögmálum þeirrar framandgervingar sem Shklovskí hafði einskorðað
við mál skáldskaparins. Þannig var grunnur lagður að brottfalli skila sem
áður ríktu á milli há- og lágmenningar, en þegar hin lóðrétta mælistika
húmanismans sem setti heimsmenninguna og manninn í öndvegi var lögð
niður blasti við láréttur flötur án miðju, enginn sannleikur eða yfirsýn en
þess í stað eilíf tilbrigði og eftirlíkingar; leikur.21
18 Þórarinn Eldjárn, „,ég reyni fyrst og fremst að vera húmoristi‘: Árni Sigurjónsson
ræðir við Þórarin Eldjárn“, Tímarit Máls og Menningar 2/1988: 34–48, hér 38. Á
þessi orð deilir Helga Kress í áðurnefndri grein, „Mikið skáld og hámenntaður
maður“, Speglanir, bls. 394.
19 Sbr. „Konets barokka“ (Endalok barokksins), lokahluta Gambúrgskí stsjot, Moskva:
Sovétskí písatel, 1989 sem hefur að geyma ýmis skrif Shklovskís 1914–1933.
20 Greinin birtist Sporum í þýðingu Árna Bergmanns.
21 Þessi hugsun á sér aðrar uppsprettur, t.d. Friedrich Nietzsche, „Um sannleika
og lygi í ósiðrænum skilningi“, þýð. Sigríður Þorgeirsdóttir og Magnús diðrik
Baldursson, Skírnir 167 (1993): 15–33.
ENdALOK NÚTÍMABÓKMENNTAFRæði Á ÍSLANdi