Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 189
188
fyrsta sinn út 1987 og selst upp. Þegar þetta mikla blómaskeið íslenskrar
bókmenntafræði er annars vegar hlýtur mönnum svo að verða starsýnt á
árabilið 1987–1988. Sem fyrr segir birtir Helga Kress loks fyrirlestur sinn
um Fóstbræðra sögu 1987, sama ár sendir Halldór Guðmundsson frá sér
„Loksins, loksins“, Ástráður skrifar grein sína um póstmódernisma 1988 og
ritdeilan þeirra á milli hefst. Það var aðeins hanaslagur öðrum þræði því
ritdeilan varðaði þrátt fyrir allt ákveðnar grunnstærðir: Halldór Laxness,
módernismann og póstmódernismann, fyrstu íslensku nútímaskáldsöguna
o.fl. Í kjölfarið upphófust líflegar umræður um skáldskap meðal bókmennta-
fræðinga, heimspekinga og rithöfunda, en vettvangurinn – rót gróin tímarit
(Tímarit Máls og menningar, Skírnir, Andvari, Mímir) jafnt sem nýgræð-
ingar (Teningur, Torfhildur), málþing haldin o.s.frv. Nýlega varpaði Gauti
Kristmannsson ljósi á þessa ólgandi deiglu og velti fyrir sér hvort þar hafi
síðustu merku umræður um tilgang skáldsögunnar á Íslandi farið fram.15
Á þessum árum umpóluðu lykilhugmyndir nútímabókmenntafræði
ýmsum grunnstoðum íslenskrar bókmenntahefðar; við annað tækifæri
mætti rekja karnival-grótesku í skilningi Helgu Kress og þau kollvarp-
andi áhrif á sagnaarfinn sem túlkun hennar hafði í för með sér.16 dauði
höfundarins eftir Barthes reyndist sömuleiðis valdeflandi fyrir fræðin, því
hann fól í sér fæðingu lesandans17 – þar með færðist raunar svo mikið vald
frá höfundi til túlkanda að mörgum þótti nóg um. Árið 1991 eða sama ár
og Spor koma út, segir Þórarinn Eldjárn t.a.m. í viðtali við Tímarit Máls og
menningar að hann hafi ekkert á móti bókmenntafræðingum:
En hins vegar vil ég ekki að það sé litið svo á að þeir stjórni bók-
menntunum. Þeir eiga ekki að gera það og það er mjög slæmt ef þeir
fara að ímynda sér að það sé þeirra hlutverk. Þeir eiga að vera eins
og lítil en vel upplýst þjónustustétt sem er á þönum í kringum hinar
risavöxnu bókmenntir og er þar að pússa glugga og dytta að ýmsu
og gera við og átta sig á samhengi. Stundum mega þeir leggja til að
15 Gauti Kristmannsson, „yfir frásagnarfljótið með Álfrúnu Gunnlaugsdóttur“, Rúnir:
Greinasafn um skáldskap og fræðastörf Álfrúnar Gunnlaugsdóttur, ritstj. Guðni Elísson,
Reykjavík: Háskólaútgáfan, 2010, bls. 112.
16 Í samhengi við þróun bókmenntafræði hérlendis má sömuleiðis benda á grein
Helgu Kress, „,Mikið skáld og hámenntaður maður‘: Íslenski skólinn í íslenskri
bókmenntafræði“ sem birtist í Ársriti Torfhildar (1994) og var endurprentuð í
greinasafninu Speglanir: Konur í íslenskri bókmenntahefð og bókmenntasögu, Reykjavík:
Háskóli Íslands/Rannsóknarstofa í kvennafræðum, 2000.
17 Roland Barthes, „dauði höfundarins“, Spor í bókmenntafræði 20. aldar, bls. 180.
gunnar Þorri PéturSSon