Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 30
29
Hin umfangsmikla gagnasöfnun og líkanagerð sem einkennir láns-
hæfis- og áhættumat kann að virðast afar ópersónulegt, en eins og bók-
menntafræðingurinn Annie McClanahan bendir á í greiningu sinni
á fjármálavæðingu í bandarískum samtímaskáldskap þá situr ávallt eftir
viss áhugi á persónunni sjálfri: „[Þ]rátt fyrir hrifningu sína af hlutlægum
talnagildum, þá getur lánshæfismatið aldrei sagt skilið við manneskjur,
vegna þess að sjálft hugtakið ‘lánshæfi’ verður ávallt eiginleiki manneskja
fremur en gagna“ skrifar McClanahan.49 Þannig bjóða efnahagstengsl
skuldsetningar heim endurnýjaðri stjórn auðmagnsins yfir lífi og örlög-
um manneskjunnar, sem styrkir þann þátt kapítalískra félagstengsla sem
lýtur að framleiðslu, formun og ögun manneskjunnar sjálfrar ekki aðeins
á vinnustaðnum heldur í öllum lifnaðarháttum sínum og ákvörðunum, allt
frá húsnæðiskaupum og námsvali til eftirlauna, og svo mætti lengi telja.
„Getur fjárhagslegur þegnskapur hafist við fæðingu?“ spyr vammlaus fjár-
málverkfræðingur í viðskiptatímariti Stanford háskóla.50 Hin skuldsetta
sjálfsvera upplifir stöðu sína innan tíma kapítalískra félagstengsla ekki sem
höfrungahlaup frá útborgunardegi til útborgunardags, heldur sem samfellt
verkefni og áætlun sem nær frá vöggu til grafar og þarf sífellt að endur-
skoða með tilliti til breytilegra framtíðarhorfna. Eins og ítalski félags-
fræðingurinn Maurzio Lazzarato bendir á, með hliðsjón af kenningum
Marx, Nietzsches, Foucaults, deleuze og Guattaris, þá mótar skuldsetning
sjálfsveruna á mun róttækari hátt en launavinna eins og sér, ekki síst vegna
þeirrar flóknu áhættustjórnunar sem sjálfsveran þarf nú að taka á sig í vax-
andi mæli. „Skuldsetning ræktar, venur, framleiðir, aðlagar og mótar sjálfs-
veruna,“ skrifar Lazzarato, en þessi mótun gerir sjálfsveruna berskjaldaðri
fyrir óvissu og áhættu framtíðarinnar og um leið ábyrga fyrir henni.51
Það mikla grafíska og óhugnanlega ofbeldi sem lýst er í Konum er ekki
49 McClanahan, „Bad Credit“, 39.
50 Bhagwan Chowdhry, „Can Financial Citizenship Begin at Birth?“, Stanford Social
Innovation Review 10. árg., 2/2012, bls. 17–18.
51 Lazzarato, The Making of the Indebted Man 38–39. Marron lýsir því hvernig æ
nákvæmari áhættustjórnun lánafyrirtækja einstaklingsvæðir áhættu sem áður var
metin út frá samfélagsheild frekar en minni hópum („Lending by Numbers“,
bls. 122–124) og gerir einstaklinginn þannig í vaxandi mæli ábyrgan fyrir kostn-
aðinum af óvissunni sem fylgir hegðun hans sem neytandi (bls. 126). Skrif hans
kallast greinilega á við kenningar Lazzaratos um þátt skuldsetningar í „framleiðslu
sjálfsverunnar“ í kapítalískum síðnútíma (The Making of the Indebted Man, bls. 11),
jafnvel þótt Marron vinni á grundvelli hefðbundinnar félagsfræði fremur en meg-
inlandsheimspeki.
FJÁRMÁLAVæðiNG OG MÓTUN TÍMANS Í KoNUM EFTiR STEiNAR BRAGA