Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 141
140
lítið á meðan á mótmælunum stóð. Í raun var það ekki annað en sefjandi
trommuslátturinn sem sameinaði andstöðu þeirra sem nú vildu eitthvað
annað en ríkisstjórnina sem þá sat.
Til þess að hægt sé að tala um samhljóm meðal mótmælenda voru
kröfur þeirra hugsanlega of ólíkar. Eins geta hagsmunir þess fólks sem tók
þátt í mótmælunum hafa verið misjafnir. Á myndum frá atburðunum má
meðal annars sjá fána anarkista og á kröfuspjöldum voru kröfur um afsögn
seðlabankastjóra, aukið jafnrétti og frjálsar handfæraveiðar. Í ræðum á úti-
fundum var krafist nýrrar stjórnarskrár, sumir ræðumenn vildu annað fjár-
málakerfi og enn aðrir nýtt lýðveldi. Ræðurnar og slagorð á kröfuspjöldum
benda til að kröfur mótmælendanna endurspegli í raun ólíka og marg-
þætta hagsmuni. Þær eru ekki samhljóma og vísa ekki í sömu framtíð-
arsýn. Kröfurnar, og raddirnar sem öskra þær, eru fjöltakta og margradda.
Hávaðinn var ekki samhljómur í dúr, í hinni hetjulegu merkingu vest-
rænnar tónlistarhefðar, heldur myrkari, óræðari og ómstríðari. En hver er
þá þessi breyting? Hvað merkir söngurinn?
Arfleifð mótmælanna sjálfra, búsáhaldabyltingarinnar, er enn í dag um
margt óljós og umdeilt hver merking hávaðans var. Sumir heyra í honum
valdeflingu og huggun, á meðan aðrir sjá ógn við lýðræðið. Túlkunarátök
standa yfir meðal annars með útgáfu ýmissa bóka og skýrslna sem fjalla um
þessa tíma. Þá er umdeilanlegt hvort yfirleitt sé réttnefni að kalla mótmæl-
in byltingu frekar en til dæmis uppreisn eða áhlaup.10 Hugsanlega má
þó segja að „byltingin“ hafi verið frekar táknræn eða menningarleg, sem
nokkurs konar viðmið, frekar en að róttækar breytingar hafi orðið á stjórn-
skipan eða samfélagsgerðinni eða að sprottið hafi upp virkt stjórnmálaafl
eða hreyfing sem fylgdi eftir kröfum hennar.11
Í þessari grein er ætlunin að greina og skýra ákveðnar hliðar hljóð-
menningar mótmælanna í kjölfar efnahagshrunsins 2008 og náðu hámarki
í janúar 2009. Ekki verður reynt að draga upp einfalda mynd af merkingu
10 Í því samhengi hefur verið bent á að búsáhaldabyltingin hafi mörg einkenni
byltinga, í algengum skilningi þess orðs, en ekki önnur og sem dæmi hafi engin
byltingaröfl komist til valda. Jón Ólafsson, „Mat lagt á reynslu Íslendinga“, Lýðræð-
istilraunir: Ísland í hruni og endurreisn, ritstj. Jón Ólafsson, Reykjavík: Háskóla-
útgáfan, 2014, bls. 7–21, hér bls. 9.
11 Egill Arnarson setur fram ýmsar áhugaverðar spurningar um örlög búsáhaldabylt-
ingarinnar í samhengi þróunar vinstri hugsunar samtímans í greininni „Mergð eða
sjálfsvera? Um hugsanlegt eðli búsáhaldabyltingarinnar“, Heimspekivefurinn, 23.
nóvember 2010, sótt 7. ágúst 2015 af https://heimspeki.hi.is/?p=2336.
njörður SigurjónSSon