Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Síða 187
186
röddun og skáldsaga“ í þýðingu Garðars. Með henni má segja að búlgarsk-
franska fræðikonan hafi kynnt Bakhtín á Vesturlöndum og staðsett hann
fræðilega á mótum strúktúralisma og táknfræði annars vegar en hins vegar
hinna nýju, póststrúktúralísku eða póstmódernísku tíma: „Ef til vill gæti
tvíröddun, fremur en tvenndarhugsun, orðið undirstaða vitsmunalegrar
formgerðar okkar tíma“,10 segir í niðurstöðukafla greinarinnar ef marka
má íslenska þýðingu. Formgerð eða strúktúr var grundvöllur strúktúral-
ismans og tvenndarhugsun (fr. opposition binaire eða binarisme) ein helsta
forsenda strúktúralískrar aðferðafræði; tvíröddun11 var aftur á móti leið
Bakhtíns til að fjalla um margröddun á sviði orðsins. Í fljótu bragði hljóm-
ar þetta rökrétt: Póststrúktúralismi tekur við af strúktúralisma, tvíröddun
leysir tvenndarhugsun af hólmi. Eða hvað?
Á frummálinu nefnist grein Kristevu „Le mot, le dialogue et le roman“
eða „Orð, samræða og skáldsaga.“12 Hvers vegna að þýða dialogue sem tví-
röddun? Bakhtín fjallar um tvíröddun í fimmta og síðasta kafla bókar sinnar
um margröddun, Problemy poetíkí Dostojevskogo (Vandinn í skáldskaparlist
dostojevskís). Tvíröddun, sem fyrr segir, er margröddun á sviði orðs-
ins, en í köflunum á undan rannsakar sovéski hugsuðurinn margröddun
í skáldskap dostojevskís út frá gagnkvæmu sambandi á milli sjálfstæðra
vitunda – höfundar, sögupersóna og lesenda. „Sannleikur fæðist hvorki
né fyrirfinnst í höfði aðskildra einstaklinga“, segir á einum stað í þessari
bók, „heldur verður til á milli fólks, sem leitar hans í sameiningu, í samræð-
unni sem skapast af samneyti þeirra.“13 Hvað gerist ef við skiptum hér
orðinu samræða út fyrir tvíröddun? Setningin verður tyrfin, það skapast
ákveðin skekkja – skekkja sem litar ekki aðeins alla þýðingu Garðars á
„Orð, tvíröddun og skáldsaga“ heldur nær allt niður í fræðilegar grunn-
stoðir póststrúktúralismans. Eða hver er þá vitsmunaleg formgerð okkar
10 Júlía Kristeva, „Orð, tvíröddun og skáldsaga“, Spor í bókmenntafræði 20. aldar,
Reykjavík: Bókmenntafræðistofnun Háskóla Íslands, 1991, bls. 128.
11 Á rússnesku er gjarnan talað um dvúkhgolosnoje slovo (tvíradda orð) og double-
voicedness á ensku.
12 Greinin birtist upprunalega í Critique 239 (1967) og nefndist þar „Bakhtine, le
mot, le dialogue et le roman“: 438–465, en var endurprentuð í bók Kristevu,
Σημειωτική: Recherches pour une sémanalyse, París: Seuil, 1969 og nefndist þá „Le
mot, le dialogue et le roman“. Stuðst hefur verið við þennan titil í öðrum málum,
t.d. heitir greinin „Word, dialogue and Novel“ í enskri þýðingu.
13 Þýðing mín unnin upp úr sjötta bindi heildarritraðar verka Bakhtíns, Sobraníje
sotsjínení:„Problemy poetíkí Dostojevskogo“, 1963, Raboty 1960-kh –1970-kh gg., ritstj.
Sergej Botsjarov og Ljúdmíla Gogotíshvílí, Moskva: Rússkíje slovarí/jazykí slavj-
anskoj kúltúry, 2002, bls. 124.
gunnar Þorri PéturSSon