Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 150
149
Bók Stefáns Gunnars Sveinssonar Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða
skipulögð? kveður við líkan tón í frásögn af mótmælunum. Þar fjallar Stefán
Gunnar í fyrsta kaflanum sem heitir „Gas! Gas! Gas!“ um aðgerðir bílstjóra
fyrri hluta árs 2008 og lítur svo á, líkt og Geir Jón, að þær séu eins konar
upptaktur að mótmælunum í kjölfar hrunsins. Í þessum frásögnum skipta
átökin við Rauðavatn 23. apríl 2008 sköpum því þar tókust óeirðaklæddir
lögreglumenn á við bílstjórana sem höfðu lokað Suðurlandsveginum með
bílum sínum og blésu í flautur.
Það undirstrikar þó hugsanlega mótsagnakennda sögu hljóðmenningar
mótmælanna að þekktasta stefið frá þeim átökum var ekki bílflautan sjálf
heldur mantran „gas, gas, gas“ sem lögreglumaður hrópar á vettvangi.
Hávaðabeitingin í þeim atburði, það er að segja öskur lögreglumanns í
beinni útsendingu í sjónvarpi, var hugsanlega afdrifaríkari en beiting pip-
arúðans í aðstæðum sem farið höfðu úr skorðum. Þannig voru líkamleg átök
við bílstjóra og valdbeiting lögreglumanna á sjónvarpsskjánum óraunveruleg
og framandi, en öskrin „gas, gas, gas“ gerðu viðburðinn áþreifanlegri eða
nálægari þeim sem sáu þau í sjónvarpi.32 Þar með hafði íslensk mótmæla-
menning líka breyst og hljóðheimur hennar var orðinn annar.
Rit Stefáns Gunnars og Geirs Jóns eiga það sameiginlegt að lýsa
aðgerðum í kringum búsáhaldabyltinguna á þann hátt að mest áhersla
er lögð á þau tilvik þar sem lögreglu og mótmælendum lendir saman.
Höfundarnir leggja áherslu á hættu sem skapaðist af líkamlegum átökum,
sem mikið er gert úr. Samúð höfunda er fyrst og fremst með lögreglu og
stjórnmálamönnum sem stóðu vörð um valdastofnanir, en hlutur einstakra
mótmælenda í aðgerðum, svo sem þekktra einstaklinga og stjórnmála-
manna sem tóku þátt, þykir grunsamlegur.
Svipuð efnistök eru í bókinni Bylting og hvað svo? eftir Björn Jón
Bragason. Ljóst er að mótmælin, sem lýst er meðal annars sem „óeirðum,“
eru í skilningi Björns hættuleg atlaga að stjórnskipan landsins. Hann telur
aðgerðirnar óréttmætar og að þær hafi byggst á valdbeitingu, hótunum
um ofbeldi og beinum ofbeldisaðgerðum. Lýsa má ólíkri afstöðu þessara
þriggja höfunda annars vegar, og síðan þeirra sem eru jákvæðari gagnvart
hávaðanum líkt og Guðmundur Andri hér að ofan, hins vegar, sem átökum
um túlkun á hávaða búsáhaldabyltingarinnar.
Átökin má meðal annars sjá í dagblöðum, en einna skýrasta afstöðu
32 Stefán Gunnar Sveinsson Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð?, Reykjavík:
Almenna bókafélagið 2013, bls. 22–24.
HÁVAði BÚSÁHALdAByLTiNGARiNNAR