Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Page 62
61
eyja M. Brynjarsdóttir
Blóðsykur, vinnuvikur, mælistikur:
Um peninga, vinnu og verðmæti
Peningar eru ekki allt en samt eru þeir iðulega notaðir sem helsti – jafnvel
eini – mælikvarði á gildi hluta. Hvers vegna hefur hlutverk þeirra orðið
svo víðtækt? Í þessari grein verður sýnt fram á að peningar eru óstöðug
mælieining og því óheppilegur mælikvarði á gildi. Markmiðið er að greina
hinar ýmsu takmarkanir peninga sem mælikvarða á gildi hluta og vinnu.
Þessum takmörkunum má skipta í tvo flokka: Annars vegar eru peningar
óstöðugur mælikvarði, en það að mælikvarðinn sé stöðugur er gjarnan
talin ein grundvallarforsenda þess að hægt sé að reiða sig á hann. Hins
vegar er oft óljóst hvað það er sem peningum er ætlað að mæla. Vissulega
liggur það fyrir að við notum mælikvarðann og með einhverjum hætti
hljótum við, eða í það minnsta mörg okkar, að telja mælikvarðann nothæf-
an. Hins vegar má segja að það veki ótal spurningar. Tekst okkur í raun og
veru að mæla eitthvað með peningum, og ef svo er, þá hvað? Eru mæling-
arnar réttar og ef svo er, í hvaða skilningi?
Fyrst verður farið yfir kenningar um gildi hluta og tengsl þeirra við
vinnu og hvernig peningar koma við sögu við gildismælingar. Næst verður
horft til hugmynda um að rjúfa tengsl peninga og vinnu með svokallaðri
skilyrðislausri grunnframfærslu. Þar á eftir skoða ég tengsl peninga við
skuldir, þvingun og þrældóm og að lokum verður litið til hugmynda Johns
Locke um að gildi peninga megi leiða af föstu gildi góðmálma.
Hvað kosta hlutirnir í raun?
„Skal ætíð nota lífsins blóð til að búa til sykur?“1 spurði Mary Wollstonecraft
í bók sinni Til varnar réttindum konunnar árið 1792 og vísaði þar til afrískra
þræla sem strituðu á plantekrum í Karíbahafinu við að rækta sykurinn
1 „is sugar always to be produced by vital blood?“ Mary Wollstonecraft, A Vindication
of the Rights of Woman, London: Joseph Johnson, 9. kafli.
Ritið 3/2015, bls. 61–82