Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2015, Blaðsíða 31
30
aðeins spurning um dramatískan áhrifamátt, heldur endurspeglar það hina
fornu tengingu milli ofbeldis lánardrottins gagnvart lánþega og valdsins
yfir tímanum sem Nietzsche fjallaði um. Frelsið, ábyrgðarleysið og hin
róttæka opnun framtíðarinnar sem skuldsetning í peningahagkerfi gerir
mögulegt krefst þess þó ávallt að skuldarinn sé gerður minnugur loforða
sinna, og skilafrestinum milli lántöku og uppgreiðslu lokað hvað sem það
kostar. Líkt og andhetja Thackerays í Vanity Fair, Becky Sharp, sem kunni
þá list að „lifa vel af engu á ári“ með aðstoð skuldsetningar, ann Eva því
frelsi sem skuldavætt kapítalískt hagkerfi býður henni og nýtur þess út í
ystu æsar að lifa á skilafrestinum milli lántöku og afborgunar.52 Við upp-
haf Kvenna hefur Eva þegið verkefnisstyrk frá bankanum en sýnir enga
viðleitni til að ljúka verkefninu, sem væri jafngildi þess að endurgreiða
þá óformlegu skuld sem styrkur af því tagi felur í sér. Þessi útistandandi
skuld er tengd við hið óuppgerða áfall, andlát dóttur Evu, og gefið er í
skyn að Eva nýti sér bankastyrkinn til þess eins að framlengja aðgerðaleysi
sitt: „hún vissi að hugmyndin var söluhæf, og þangað til eitthvað færi af
stað gæti hún að minnsta kosti reynt að fjármagna draslið, og drykkjuna.
Þannig hugsaði hún“ (k 131).
Eins og þegar var minnst á er Eva kynnt fyrir lesendum sem mann-
eskja sem elskar frelsi og ófyrirsjáanleika – „sveimhugi“ (k 76) sem þolir
ekki að vera bundinn stað, hlutverki eða hefðum og er sjálf að vissu leyti
útlendingur á Íslandi, uppalin að mestu í Bandaríkjunum.53 Nágrannakona
Evu, Bergþóra, tengir landleysi hennar við starfsval hennar: „Gerir mann
að listamanni, er það ekki? Að vera landlaus, heimilislaus jafnvel?“ spyr
kerlingin Bergþóra, og bætir við: „Rótleysi listamannsins, að vera alltaf
aðkomandi, ókunnugur í heiminum!“ (k 23) Síðar í samtalinu staðfestir
Eva ást sína á ófyrirsjáanleika íslenska veðursins, sér í lagi rigningarinnar.
52 William Makepeace Thackeray, Vanity Fair. A Novel Without a Hero (London:
Vintage, 2009 [1847]). Kafli 36 ber heitið „How to Live Well on Nothing a year“
og lýsir því hvernig tálkvendið Becky og eiginmaður hennar Rawdon Crawley fara
að því að lifa um efni fram. Það gera þau með því einu að skuldsetja sig. Líf Becky
einkennist af rótleysi þar sem ábyrgðarlaust hóglífi og örvæntingarfullur flótti
skiptast á.
53 Rótleysi og erlendan bakgrunn Evu er einnig auðvelt að setja í samhengi við aðra
menningarlega staðalímynd úr viktoríönskum bókmenntum sem var nátengd
fjármálaauðmagni, Gyðinginn. Michael Ragussis rekur hvernig staðalímynd Gyð-
ingsins var ekki aðeins bendluð við okurlánastarfsemi heldur einnig dulargervi
og sviðsetningu – allt þemu sem eiga sér samsvörun við listir. Sjá kafla 6 í Figures
of Conversion: „The Jewish Question“ English National Identity (durham: duke
University Press, 1995).
ViðaR ÞoRsteinsson