Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Page 22
21
smátt vikið fyrir öðrum rannsóknarefnum hafi hann haft afgerandi áhrif á
stöðu leikjafræða í samtímanum, sjálfsskilning fræðigreinarinnar og hvern-
ig leikjafræði skilgreinir viðfang sitt, leikjamiðilinn. Því verður haldið fram
að eftirköst deilu spilunar- og frásagnarsinna hafi reynst mun afdrifaríkari
en almennt er álitið og viðurkennt. Egenfeldt-Nielsen, Smith og Tosca
telja til dæmis að „ekki sé auðvelt að spá fyrir um framtíðaráherslur leikja-
fræðinnar en víst [sé] að áherslan á frásagnarlega vídd leikja tilheyri fortíð-
inni.“25 Að okkar mati hefur það stig í þróun fræðasviðsins sem kennt er
við frásagnarhugtakið og/eða deilu spilunar- og frásagnarsinna í raun aldrei
verið yfirstigið að fullu. Víða í orðræðu leikjafræðinnar í samtímanum má
greina svipi gamalla rökfærslna og þá eðlishyggju sem einkenndi svo mjög
málflutning spilunarsinna. Viðhorf sem voru umdeild fyrir áratug hafa í
sumum tilfellum samlagast sjálfsmynd og ríkjandi orðræðu leikjafræðinnar
og eru nú álitin sjálfsögð.
Sama á við um það sem kalla mætti „niðurstöðu“ deilunnar. Það er
til að mynda áhugavert hversu ríkur samhljómur er um það innan fræð-
anna að ágreiningur frásagnar- og spilunarsinna hafi á endanum skilað
mikilsverðri þekkingu inn í fræðin um eðlisþætti tölvuleikja. Vissulega
er það viðurkennt að ákveðnir öfgar hafi snemma tekið að einkenna (og
afmynda) umræðuna, einkum af hálfu spilunarsinna, en því er þó haldið
fram að báðar fylkingarnar hafi haft ýmislegt til síns máls, eða eins og
Larissa Hjorth orðar það þá hafi viðhorf Juuls, mest áberandi talsmanns
spilunarsinna um árabil, „reynst mikilvæg þegar að því kom að skilgreina
og staðsetja spilunarfræði (e. ludology) sem fræðasvið er einbeiti sér að
leikjum og spilamennsku“ enda þótt „málflutningur hans hafi verið heldur
ofstopafullur.“26 Algengt er að sjá fræðimenn leggja sig í líma við að rétta
hlut spilunarsinna með því að ítreka að með því að draga fram mikilvægi
formgerðarinnar hafi þeir beint sjónum fræðanna að nýju greiningarvið-
fangi og um leið reitt fram þá aðferðafræði sem umfjöllun um þetta nýja
viðfang krafðist og þarfnaðist, sum sé „lúdólógíu“ eða spilunarhyggju.
Málflutningur spilunarsinna hefur með öðrum orðum haft þau áhrif að
nú telst það eðlilegt, jafnvel eftirsóknarvert, að rætt sé um formgerð leikja
og spilun þeirra sem sjálfstæða einingu eða að minnsta kosti aðskilda frá
frásagnarhliðinni.27
25 Simon Egenfeldt–Nielsen, Jonas Heide Smith og Susana Pajares Tosca, Under-
standing Video Games, bls. 192.
26 Larissa Hjorth, Games and Gaming, bls. 28.
27 Sama rit, bls. 25.
FRÁSöGN EðA FoRMGERð?