Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Blaðsíða 69
68
ennfremur hjá helsta konstrúktívista leiksviðsins, Vsevolod Mejerhold,
áður en hann sneri sér að kvikmyndagerð. En segja má að kvikmynd hans
Orrustuskipið Pótemkín (1926, Bronenosets Potjomkín) hafi gegnt viðlíka
kynningarhlutverki fyrir sovésku myndfléttuna, þótt hún hafi ekki verið
fyrsta myndin af því taginu, og Tjald Dr. Caligaris fyrir þýska expressjón-
ismann. Ásamt kollegum sínum Vsevold Púdovkin, Aleksandr Dovzhenko
og Dzíga Vertov umbylti Eisenstein hefðbundinni kvikmyndagerð og gætti
áhrifa þess víða. Talsverð fjölbreytni ríkti innan hreyfingarinnar sem rúm-
aði jafnt heimildarmyndir Vertovs, sem alfarið hafnaði sviðsetningu í kvik-
myndagerð, og Móður (1926, Mat) Púdovkins sem bjó yfir hádramatískri
atburðarás, leik og sviðsetningu. Verkin áttu engu að síður öll sameiginlega
hina einkar óhefðbundnu klippingu, myndfléttuna sem hún er kennd við,
þar sem skeytt var saman oft ólíkum myndskeiðum í merkingarbærum til-
gangi (myndir 5–6). Stigvaxandi þunga hennar má greina í kvikmyndum
Eisensteins, Verkfall, Orrustuskipið Pótemkín og Október (1928, Oktjabr),
þar sem hann mótaði ekki aðeins áreitna myndfleti að hætti konstrúktívista
heldur skeytti þeim ört saman með klippingu og magnaði þannig áhrifin.19
Impressjónisminn, expressjónisminn og myndfléttan liðu undir lok með
tilkomu hljóðmyndarinnar þótt ekki sé allskostar ljóst hvort hún hafi verið
meginorsökin. Því verður þó að minnsta kosti ekki neitað að hreyfing-
arnar áttu sameiginlega áhersluna á óraunsæja myndræna framsetningu,
með eða án klippingar, sem féll illa að raunsæi hljóðsins í talmyndinni.20
Þær áttu það einnig sameiginlegt að tilheyra mestmegnis kvikmyndaiðnaði
sinna þjóðlanda og oft var ekkert til sparað við gerð myndanna – express-
jónísku stórmyndirnar Metropolis (1927, Fritz Lang) og Faust (1927, F. W.
Murnau) voru raunar á meðal dýrustu kvikmynda þögla skeiðsins. Hvað
þetta varðar eru hreyfingarnar þrjár á algerlega öndverðum meiði við kvik-
myndir framúrstefnunnar, því jafnvel þótt þær væru gerðar á sama tímabili
og tilheyrðu áþekkum módernískum listhreyfingum voru þær gerðar á
jaðri ef ekki alfarið handan hins eiginlega kvikmyndaiðnaðar.
19 Sjá um sovésku myndfléttuna í sígildri úttekt Jay Leyda, Kino: A History of the
Russian and Soviet Film, Princeton: University of Princeton Press, 1960, bls. 136–
245, og Richard Taylor, The Politics of the Soviet Cinema 1917–1929, Cambridge:
Cambridge University Press, 1979. Þá er að finna fagurfræðilega úttekt á mynd-
fléttu og klippingu almennt í riti Sams Rohdie, Montage, Manchester: Manchester
University Press, 2006.
20 Sjá frekar um kvikmyndakenningar þöglu áranna og tilkomu hljóðsins í inngangi
mínum að bók Rudolfs Arnheim Um kvikmyndalistina, þýð. Björn Ægir Norðfjörð,
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2013, bls. 9–70.
BJöRN ÆGIR NoRðFJöRð