Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Blaðsíða 221
220
Helga Þorlákssonar (f. 1945). Sú fyrrnefnda gaf 1997 út viðamikið rit er
bar titilinn Siðbreytingin á Íslandi 1537–1565. Byltingin að ofan og var byggt
á þýskri doktorsritgerð höfundarins.121 Á nýliðnu ári (2013) kom bókin
út aukin og bætt. Nú hafði titli hennar vissulega verið breytt en orðið
siðbreyting hélt þó velli þar sem það endurspeglast í heitum burðarkafla
verksins er kallast „Bakgrunnur siðbreytingarinnar á Íslandi – gamla kerf-
ið“ og „Siðbreytingin“.122 Eins gegnir heitið lykilhlutverki í ritgerð hins
síðarnefnda „Frá kirkjuvaldi til ríkisvalds“ sem myndar VI bindi Sögu
Íslands („þjóðhátíðarútgáfunnar“) frá 2003. Meðal fyrirsagna á meginköfl-
um þar eru „Siðbreytingin í Skálholtsbiskupsdæmi“, „Jón Arason og sið-
breytingin“ og „Í kjölfar siðbreytingar 1551–70“.123
Íslandssögubækur Jónasar Jónssonar (1885–1968) frá Hriflu, kennara
við Kennaraskólann en síðar dóms- og kirkjumálaráðherra, mótuðu við-
horf nokkurra kynslóða á 20. öld til sögu þjóðarinnar almennt. Í seinna
(síðar öðru) hefti var fjallað um trúmálaumbrot 16. aldar. Í fyrstu útgáfu frá
1916 var heitið siðabót notað en með nokkrum tilbrigðum þar sem einnig
er rætt um siðbót, siðbótarlönd en siðabótarmenn.124 Í fjórðu prentun frá
1935 hafði siðabót vikið fyrir heitinu siðaskipti og samsetningum af því.125
Hélst það rúmum 50 árum síðar er ritið kom síðast út (1968) í endurskoð-
aðri gerð Kristjáns J. Gunnarssonar (1919–2010) fræðslustjóra.126
Af yngri kennslubókum um sögu þjóðarinnar má nefna Íslandssögu
Þórleifs Bjarnasonar (1908–1981) frá 1966 þar sem fjallað er um trú-
málahræringar 16. aldar undir fyrirsögninni „Hinn nýi siður á Íslandi“
og rætt í því sambandi um siðaskipti.127 Í kennslubók Gunnars Karlssonar
(f. 1939) er fjallað um efnið undir kaflaheitinu „Siðaskipti“ og það heiti
121 Vilborg Auður Ísleifsdóttir, Siðbreytingin á Íslandi 1537–1565. Byltingin að ofan,
Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 1997.
122 Vilborg Auður Ísleifsdóttir, Byltingin að ofan, bls. 7 (efnisyfirlit).
123 Helgi Þorláksson, „Frá kirkjuvaldi til ríkiskirkjuvalds“, Saga Íslands VI. b., ritstj.
Sigurður Líndal, Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, Sögufélagið, 2003, bls.
1–458.
124 Jónas Jónsson, Íslandssaga handa börnum síðara hefti, Reykjavík: Félagsprentsmiðj-
an, 1916, bls. 31, 32, 41.
125 Útgáfuár er gefið upp 1933 á kápu en 1935 á titilblaði og er hér miðað við það.
Jónas Jónsson, Íslandssaga. Kennslubók handa börnum annað hefti, Reykjavík: Bóka-
félagið, 1935, bls. 38.
126 Jónas Jónsson, Saga Íslands síðara hefti, Kristján J. Gunnarsson sá um útgáfuna,
Reykjavík: Ríkisútgáfa námsbóka, 1968 bls. 28, 38, 41.
127 Þórleifur Bjarnason, Íslandssaga. Prentað sem handrit, Reykjavík: Ríkisútgáfa náms-
bóka, 1966, bls. 86, 88, 89, 91, 92.
hJalti huGasoN