Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Blaðsíða 64
63
heldur fyrst og fremst í myndlist. Ber þar hæst þrjár hreyfingar sem urðu
áhrifamiklar og jafnvel leiðandi í kvikmyndaframleiðslu í hverju landinu
fyrir sig og oftast reyndar auðkenndar sem slíkar: franski impressjón-
isminn, þýski expressjónisminn og sovéska myndfléttan (sem á rætur að
rekja til konstrúktívisma). Í þessum kafla verða helstu eiginleikar hverrar
hreyfingar dregnir fram og að lokum vöngum velt yfir áþekkum endalok-
um þeirra.
Áþreifanlegustu tengslin á milli módernisma í málaralist og kvikmynda-
gerð er líklega að finna hjá feðgunum Pierre-Auguste og Jean Renoir. Hafa
ber þó í huga að skeið impressjónismans í málaralist var mikið til á enda
runnið þegar kvikmyndamiðillinn kom til sögunnar, og hvað þá fyrstu
impressjónistar miðilsins. Renoir eldri var raunar allur áður en sonurinn
leikstýrði sinni fyrstu kvikmynd, í kjölfar frumherja hreyfingarinnar á borð
við Abel Gance sem gerði Hjólið (1922, La Roue) og Jean Epstein sem leik-
stýrði Tryggu hjarta (1923, Cœur fidèle). Í stað þess að kvikmynda viðfangið
„milliliðalaust“ beittu þeir, ásamt leikstjórum á borð við Louis Delluc,
Jacques Feyder, Marcel L’Herbier og Germaine Dulac, margvíslegri tækni
(til dæmis myndblöndunum, ljóssíum, speglum og skerpustýringu) til að
ljá því framandi ásýnd (myndir 1–2). Þeir nefndu hina kvikmyndalegu
umbreytingu viðfangsins „myndrænu“ (f. photogénie). Hugtakið vísaði þó
ekki síður til skynjunar áhorfandans, sem rétt eins og í impressjónískri
málaralist var í brennidepli, enda vísar „impression“ jafnt til ásýndarinnar
sem og viðbragða við henni.
Þótt impressjónismi í málaralist og kvikmyndagerð hafi ekki verið sam-
ferða í tíma er um mikilvæg tengsl að ræða af að minnsta kosti tveimur
ástæðum. Dudley Andrew ýjar að þeirri fyrri í sömu andrá og hann gefur
til kynna takmarkaðan skyldleika hreyfinganna: „Það er hins vegar vel þess
virði að viðhalda hinu ónákvæma og vandræðasama hugtaki ‚impressjón-
ismi‘ þótt ekki væri nema fyrir tilgerðarleg [e. pretentious] tengsl þess við
samnefnda hreyfingu í málaralist.“16 Það er að segja með því að kenna
ákveðnar kvikmyndir við helstu myndlistarhreyfingar 19. aldar var þeim
lyft upp á áður óþekktan stall. Mikilvægi upphafningarinnar verður vart
ofmetið í ljósi þess hversu lítillar virðingar kvikmyndir nutu almennt undir
lok annars áratugarins. Með tilkomu verka á borð við Ég ákæri (1919, Abel
Gance, J’Accuse), Andlit barnanna (1925, Jacques Feyder, Visages d’enfants)
16 Dudley Andrew, Mists of Regret: Culture and Sensibility in Classic French Film,
Princeton: Princeton University Press, 1995, bls. 34.
FRÁ FRAMÚRSTEFNU TIL HÁTÍðARMYNDA