Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Blaðsíða 224
223
leysi í orðavali sem m.a. hafði gætt hjá Páli Eggerti snemma á 20. öld. Hið
áhugaverða er þó að Sverrir notaði að minnsta kosti tvö hefðbundin og eitt
óhefðbundið heiti yfir hræringar 16. aldar og greinir þar m.a. skýrt á milli
hugmynda- og guðfræðisögulegs sjónarhorns og sjónarhorns stjórnmála-
sögunnar. Hann virðist hafa notað siðskipti sem yfirheiti yfir hræringar
tímabilsins í heild og þá aðallega í stjórnmálasögulegu samhengi eins og á
undan greinir. Þetta kann að vera óljóst í bókartitlinum en verður greini-
legra þegar þess er gætt að meðal siðskiptamannanna sem hann fjallaði
um eru Niccolo Machiavelli (1469–1527) höfundur Furstans, Karl V
(1500–1558) Þýskalandskeisari, Filippus II (1527–1598) Spánarkonungur,
Elísabet I (1533–1603) Englandsdrottning, Gústaf II Adólf (1594–1632)
Svíakonungur, Richelieu (1585–1642) kardínáli og oliver Cromwell
(1599–1658) auk Erasmusar frá Rotterdam, Lúthers, Calvín og Ignatíusar
Loyola (1491–1556) stofnanda Jesúítareglunnar. Þarna kennir því margra
grasa allt frá kirkjugagnrýnendum, reformistum og reformatorum, til póli-
tískra hugsuða og valdhafa sem áttu það sameiginlegt að þurfa að taka
afstöðu í trúarpólitískum átökum 16. aldar.
Hin heitin sem Sverrir notaði, sem sé endurbót og siðbót, eru hug-
mynda- og/eða guðfræðisögulegri. Hann taldi Erasmus fulltrúa „hægfara
endurbótahreyfingar“.137 Þar átti hann við grein af meiði þess sem hér á
undan hefur verið nefnt reformismi upp á erlenda vísu, það er kirkjugagn-
rýni sem að vísu gat gengið langt en klofnaði þó ekki frá miðaldakirkjunni.
Er athyglisvert að Sverrir braut hér langa keðju heita með forliðnum sið(a)-
en leitaðist við að fara svipaða leið og gert er í fjölmörgum tungumálum
sem nota forliðinn re- í þessu sambandi. Hér fór hann því sömu leið og
farin var þegar erlenda orðið renaissance var þýtt með endurreisnar-hreyf-
ing.138 Um Lúther og fylgjendur hans sem og Calvín viðhafði hann aftur á
arinnar“ á eflingu hins einvalda konungsvalds. Taka má undir ummæli hans. Þess
skal þó getið að tengsl pólitískrar þróunar og framkomu mótmælendakirkna eru
flóknari. Sjá Hjalti Hugason, „Hverju breytti siðbreytingin?“, bls. 76–77.
137 Sverrir Kristjánsson, Siðskiptamenn og trúarstyrjaldir, bls. 53. Í nýbirtri grein ræða
Loftur Guttormsson og Helgi Skúli Kjartansson um „umbótasinna“. Loftur Gutt-
ormsson og Helgi Skúli Kjartansson, „Siðaskiptin og fátækraframfærsla“, bls.
129.
138 Sverrir notaði sjálfur endurfæðing yfir renaissance. Sverrir Kristjánsson, Siðskipta-
menn og trúarstyrjaldir, bls. 93. Benda má á eldri dæmi um að reynt sé að fara svipaða
leið í orðnotkun, þ.e. nota ólíkar útfærslur á forliðnum re-. Jón Halldórsson (Bisk-
upasögur I, bls. 2, 56) ræddi um endur-bót trúarbragðanna og Ágúst H. Bjarnason
(Saga mannsandans V, bls. 53) um endurbætta kirkju í merkingunni lúthersk kirkja
(eftir 1526).
HEITI SEM SKAPA RÝMI