Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Blaðsíða 242
241
en hann ræður lítið yfir. Maðurinn virðist einatt gerður afturreka í leit
sinni að hinu góða lífi. Hann býr hvorki við öryggi né áhyggjuleysi. Hann
er gerólíkur guðdómnum.
Sú skoðun að guðdómurinn ákveði mannlega hamingju kann að vekja
örvæntingu. Sumir höfundar, ekki síst lýrísku skáldin, töldu að hamingjan
væri einfaldlega handan mannsins þar sem hún væri guðdómleg; lífið væri
röð af misjafnlega alvarlegum hörmungum sem guðdómurinn útdeildi,
hvort heldur í samræmi við réttlæti eða af duttlungum einum saman. Aðrir
höfundar færðu manninn nær sporbraut guðanna, þannig að hann gæti
tímabundið tekið þátt í hamingju guðdómsins og jafnvel hafið sig upp yfir
sitt mannlega ástand vegna guðdómlegrar nálægðar. Eigi fólk að breyta til
þess að verða hamingjusamt, verður það sjálft að eiga einhvern þátt í því að
höndla eigin hamingju; hér skiptir ágætið öllu máli. Sé hamingjan alls ekki
að neinu leyti á valdi þessa fólks, sé hamingja þess aðeins undir guðdómi
og örlögum komin, þarf breytni þeirra ekki að horfa til hamingjunnar. En
velti hamingjan á guðdómnum, þá gæti fólk reynt að vinna guðdóminn á
sitt band (alltént reita hann ekki til reiði) með guðrækilegri hegðun, rétt-
látri og auðmjúkri, en a.m.k. þannig að guðdómurinn brosi við fólkinu.
Þannig virðist Hesíodos sjá fyrir sér hvernig maðurinn kemst næst því að
höndla hamingju.
Hesíodos virðist ekki líta hina sælu (makares) sömu augum og Hómer,
heldur sem daímones, guðdómlegar verur eða anda, sem fólk kallar makares
til að forðast illvilja þeirra.18 Þetta eru myrk öfl sem geta orsakað hörm-
ungar og verður að friðþægja á ýmsa lund. Þessar verur geta gefið fólki
ríkidæmi og þannig eru þær daímones. Sé maður svo hamingjusamur sem
kostur er, þá hefur maður sloppið við illvilja þeirra og notið góðvilja. Sá
sem er olbíos er enn auðugur, sem er birtingarform þess að vera evdaímon.
Hér skiptir heiðurinn ekki eins miklu máli og hjá Hómer, en siðferðið
sem ræður, hófsemin og sjálfskilningurinn (sōphrosynē), verður best skilið
út frá sambandi manns við daímones; vertu vakandi fyrir vilja þeirra; vertu
hygginn þannig að þú framkallir ekki illvilja. Hér má sjá annars konar
aðkomu þeirra samvinnugilda sem við sáum hjá Hómer, þar sem spenna
var á milli þeirra og samkeppnisgilda. Þessi sýn Hesíodosar á kosti taum-
halds og hófsemi hefur oft verið tengd Delfí og því sem þar stóð: mēden
agan (ekkert um of) og gnōþi seauton (þekktu sjálfan þig), sem undirstrikaði
18 Sjá de Heer, MAKAR, bls. 20–26; M.L. West, Hesiod: Works and Days, oxford:
Clarendon Press, 1978, bls. 186.
SIFJAFRÆðI HAMINGJUNNAR