Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Blaðsíða 24
23
inni aðferðafræði sem jafnframt má kalla túlkunarhátt eða fagurfræði.29
Sá langi vegur sem skilur skilning spilunarsinna á tölvuleiki frá viðhorfi
frásagnarsinna afhjúpar hins vegar mikilvæga túlkunarfræðilega breidd í
nálgun á tölvuleikjum og það er afar mikilvægt að missa ekki sjónar á þessu
grundvallaratriði.
II. Mýtan um afstrakt leiki
Terry Eagleton hefur sýnt hversu flókið net hagsmuna og menningar-
pólitískra sjónarmiða lá að baki þeirri ákvörðun á ofanverðri nítjándu öld
að hefja kennslu enskra bókmennta í breskum háskólum.30 Í nýlegri grein
um stöðu háskóla í samtímanum færir Jón Ólafsson rök fyrir því að háskól-
inn sé „mótsagnakenndur vegna þess að hlutverk hans hefur alltaf verið
að rúma togstreitu, gagnrýni, ágreining og samkeppni sem nauðsynleg er
til að tryggja eðlilegan viðgang hugsunar.“31 Við blasir jafnframt að hug-
vísindin – það svið innan háskólans sem af nafninu að dæma ætti öðrum
fremur að sinna hlutverkinu sem Jón nefnir – eru á undanhaldi hvert sem
litið er. Hugmyndafræðilegt mikilvægi háskóla í þágu ríkjandi afla (en
þetta myndar umtalsverðan hluta af umfjöllun Eagletons ) er ótvírætt en
valdaöflin hljóta þar ekki sjálfkrafa brautargengi. Innan háskóla er rótgróin
viðnámshefð sem tengist hlutverkinu sem Jón nefnir.32 En þegar verið er
að kippa tilvistargrundvellinum undan heilu fræðasviði og jafnvel fleiri en
einu – eða fræðasviðið virðist í öllu falli vera að missa sitt fyrrum trausta
bakland, nemendum fækkar, stöðum sömuleiðis, deildir eru sameinaðar,
þeim er lokað; hvað svo sem veldur – skapast ringulreið og ekki er lengur
29 Nánar verður fjallað hér að neðan um aðgreininguna milli fagurfræði og að-
ferðafræði.
30 Terry Eagleton, Literary Theory. An Introduction, oxford and Cambridge: Blackwell,
1992, bls. 17–53.
31 Jón Ólafsson, „Róttækur háskóli – tvíræður háskóli“, Ritið, 1/2011, bls. 25–46, hér
bls. 43.
32 Hér er vissulega um ákveðna þversögn að ræða og um hana hefur Henry Giroux
fjallað í bókinni The University in Chains: Confronting the Military-Industrial-
Academic Complex (Boulder, Paradigm Publishers, 2007) en þar bendir hann á að
um leið og ríkjandi öfl hafa haslað sér völl innan háskólakerfisins bandaríska sé
þar ennþá (og jafnframt) að finna eitt hið síðasta skjól frjálsrar hugsunar og gagn-
rýnna viðhorfa í garð þjóðfélagsins. Nauðsynlegt er að nefna Noam Chomsky í
þessu samhengi en fáir, ef nokkur, hefur fjallað um málefni sem tengjast viðnámi
og menntamönnum af viðlíka einurð og hann, sjá t.d. Noam Chomsky, Objectivity
and Liberal Scholarship, New York og London: The New Press, 2003.
FRÁSöGN EðA FoRMGERð?