Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Blaðsíða 67
66
sem og öðrum róttækum hreyfingum þögla skeiðsins, svipað mótvægi og
akademíska myndlistin var málurunum.
Í þýskri kvikmyndagerð þriðja áratugarins gegndi expressjónism-
inn áþekku hlutverki og impressjónisminn gerði í Frakklandi. Tjald Dr.
Caligaris (Robert Wiene, Das Cabinet des Dr. Caligari) sló í gegn á heims-
vísu í framhaldi af frumsýningu hennar árið 1920 og hefur hún allar götur
síðan verið helsti fulltrúi hreyfingarinnar, en myndin einkennist af ýktu
látbragði og svipbrigðum leikara og skökkum og afmynduðum byggingum
í leikmynd sem kallast á við expressjóníska myndlist (myndir 3–4). Í kjöl-
far Tjalds Dr. Caligaris var gerður í Þýskalandi fjöldi mynda, þar á meðal
Nosferatu (1922, F. W. Murnau), Skuggar – næturhillingar (1923, Artur
Robison, Schatten – Eine nächtliche Halluzination) og Vaxmyndasýningin
(1924, Paul Leni, Das Wachsfigurenkabinett), sem reyndu með svipuðum
hætti að draga fram innra sálarlíf persóna með ævintýralegri atburðarás og
framandi umhverfi, en einkum þó margvíslegri brenglun og stílfæringu á
sviðsmynd.
Tengslin við upphaflegu myndlistarhreyfinguna voru áþreifanlegri hjá
expressjónismanum þýska en impressjónismanum franska, þar sem kvik-
myndirnar komu í beinu framhaldi af myndlistinni auk þess sem sviðs-
list (einkum leikmyndagerð) undir áhrifum expressjónismans hjálpaði til
við að brúa bilið yfir í kvikmyndina. Engu að síður eru tengslin nokkuð
stríð, ekki síst þar sem mörg expressjónísk málverk standa nær afstrakt
list. Að frátöldum einstaka kvikmyndum sem búa yfir skýrum myndrænum
tengslum, ekki síst Tjald Dr. Caligaris, er fremur um að ræða sameiginleg
almenn viðmið expressjónismans, þar sem innri tilfinningum er miðlað í
gegnum ytri ásýnd.18
Nánasta sambandið á milli kvikmyndagerðar og almennrar listhreyf-
ingar var að finna í Sovétríkjunum, þar sem myndfléttan var eiginlegur
hluti af umróti listhreyfingarinnar konstrúktívismi fremur en að hún fylgdi
í kjölfar hans. Konstrúktívisminn var ólíkur helstu framúrstefnuhreyfing-
um tímabilsins, jafnvel þótt hann kunni að hafa verið undir áhrifum frá
18 Sjá um hreyfinguna í sígildri umfjöllun Lotte H. Eisner, The Haunted Screen: Ex-
pressionism in the German Cinema and the Influence of Max Reinhardt, önnur útgáfa,
þýð. Roger Greaves, Berkeley: University of California Press, 2008, og samantekt
Ians Roberts, German Expressionist Cinema: The World of Light and Shadow, London:
Wallflower Press, 2008. Þá fjallar Björn Þór Vilhjálmsson um þýska expressjón-
ismann, einkum og sér í lagi þó kvikmyndina Vaxmyndasýningin, í greininni „Sögur
úr vaxmyndasafninu: Vangaveltur um kvikmyndir, varðveislu og minni“, sem birtist
í fyrrnefndu Riti tileinkuðu módernisma: 2/2013, bls. 149–76.
BJöRN ÆGIR NoRðFJöRð