Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2014, Blaðsíða 72
71
blæ þar sem hvatir og bælingar takast á. Hin myndræna framsetning kall-
ast svo mjög á við súrrealíska myndlist að fjöldi ramma myndarinnar hefði
sómað sér vel á listsýningu hreyfingarinnar (myndir 7–8). Buñuel og Dali
þróuðu þessa sýn sína áfram í Gullöldinni, en auk hennar mætti tína til
Skelina og klerkinn (1928, Germaine Dulac, La Coquille et le clergyman),
gerð eftir handriti Antonin Artaud, og Blóð skáldsins (1930, Jean Cocteau,
Le Sang d’un Poète), sem dæmi um mikilvægar súrrealískar kvikmyndir – en
þær höfðu líklega hvað víðtækustu áhrifin af framúrstefnumyndunum.24
Í ljósi þess að súrrealisminn átti um margt rætur í dada, sem einkenndist
þó af miklu óhlutbundnari framsetningu og óreiðukenndari samsetning-
um (og var því sem næst án frásagnarviðmiða), þarf ekki að koma á óvart
að einstaka listamenn hafi gert kvikmyndir í anda beggja hreyfinga. Man
Ray átti eftir að gera nokkrar mikilvægar súrrealískar kvikmyndir en fyrsta
myndin hans, Snúið til skynseminnar (1923, Retour à la raison), var ögrun
að hætti dada, en forsprakki hreyfingarinnar Tristan Tzara hafði gefið
honum sólarhring til að gera kvikmynd. Í myndinni er að finna samspil
margra ólíkra ímynda án röklegs samhengis. Margar þeirra voru svokall-
aðar „rayographs“-ímyndir. Þær byggðu á tækni sem Man Ray hafði þegar
útfært á ljósmyndum og fólst í því að leggja hluti á ljósmyndapappír eða
filmu og lýsa svo þannig að viðfangið var í sjálfu sér aldrei ljósmyndað eða
kvikmyndað með hefðbundnum hætti (myndir 9–10). Myndlistarmaðurinn
Marcel Duchamp byggði einnig á fyrri verkum við gerð dadamyndarinn-
ar Blóðlaus kvikmynd (1926, Anémic cinéma), sem hann gerði einmitt með
aðstoð Man Ray, en í henni er finna dáleiðandi snúningsskífur (rotoreliefs)
með óræðum textaskilaboðum. Þá má geta þess að Duchamp og Man Ray
sitja að tafli í dadamyndinni sem kannski er kunnust, Hlé (1924, Entr’acte),
sem René Clair leikstýrði, en í henni er ítrekað grafið undan hefðbundinni
frásagnarbyggingu með margvíslegri órökvísi í anda hreyfingarinnar.
Losaralegasti flokkur Bordwells og Thompsons er cinéma pur, sem þau
fella í meðal annars Fimm mínutur af cinéma pur (1926, Henri Chomette,
Cinq minutes de cinéma pur) og H2O (1929, Ralph Steiner). Flokkurinn
tengist ekki almennri listhreyfingu, en ljóðræn og óhlutbundin myndun
viðfangsefna og oft taktbundin klipping er sameiginleg verkunum. Þá telja
24 Andalúsíuhundurinn fær jafnframt stundum að fljóta með í almennri umfjöllun um
módernisma, vafalaust sakir aðkomu Dalis, en kvikmyndum er allajafna gefinn lítill
gaumur í slíkri umfjöllun. Þannig er hann til að mynda eina kvikmyndin sem tekin
er til umfjöllunar í smáritinu Modernism: A Very Short Introduction eftir Christopher
Butler, oxford: oxford University Press, 2010, bls. 72–73.
FRÁ FRAMÚRSTEFNU TIL HÁTÍðARMYNDA