Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Page 19
MÚLAÞING
17
einnig í dráttlist (teikningu), enda var það annað aðalstarf hans, er hann
kom heim að kenna teikningu í skólum.
Stefán var ávallt léttlyndur og glaðvær í umgengni og eignaðist því
marga vini á Hafnarárum sínum. Einn af þeim var Guðmundur Hannes-
son læknir, sem batt ævilanga tryggð við Stefán og hefur lýst honum
betur en nokkur annar.
Hann kynntist einnig Einari Jónssyni myndhöggvara, og unnu þeir
um tíma saman í tréskurði á vinnustofu C. B. Hansen. Urðu þeir góðir
vinir, og telur Einar að Stefán hafi hjálpað sér til að komast inn á tré-
skurðarstofuna. Þó að Einar ætlaði sér alltaf að verða myndhöggvari, var
það að ráði Stephan Sinding, hins norska listamanns, að hann lærði fyrst
eitthvað í tréskurði. Þaðan fór Einar svo til S. Sinding í listnám. En með-
an hann var á tréskurðarstofunni komst hann inn á Lærlingaheimilið í
Nérreségade 11, þar sem Stefán bjó, og kom það sér vel fyrir efnalítinn
námsmann að fá þar inni.
Stefán lauk námi sínu með því að taka sveinspróf í skurðlist. Próf-
smíði hans var skáphurð skorin í ítalskan hnotvið og gerð af miklum
hagleik og snilld, enda fékk hann fyrir hana ágætiseinkunn og verð-
launapening. Gripurinn var gerður í ítölskum renisansestíl og er nú
geymdur í Þjóðminjasafninu.
Að því loknu fór Stefán í námsferð suður um Evrópu, til að sjá fleira í
listgrein sinni og læra meira í tréskurði og dráttlist. Hann fór fyrst til
Berlínar og naut þar tilsagnar Ferdinant Fogt um tíma, og árið eftir fór
hann austur í Leipzig. Þaðan fór hann suður í Sviss og dvaldist í Zúrich í
þrjá mánuði.
Þá hlaut hann 450 kr. styrk til frekara náms, sem Finnur Jónsson pró-
fessor mun hafa útvegað honum úr sjóði sem hét: „Dánargjöf Larsens
og konu hans“. Finnur var góður vinur Stefáns og ritaði um prófsmíð
hans í Eimreiðina 1895 og birti þar mynd af skáphurðinni.
Vegna styrksins gat Stefán framlengt námsdvöl sína, og fór næst til
Dresden og Wien. Mun hann hafa komist alla leið til Ítalíu, þótt ég hafi
engar heimildir um dvöl hans þar. Hann mun alls hafa verið í þessari
námsferð á annað ár, og hefur eflaust haft mikið gagn af ferðinni.
Þegar hann kom til Hafnar aftur leitaði hugurinn heim til Islands, og
sumarið 1897 tók hann sér far með skipi þangað eftir tæplega 7 ára úti-
vist.
í prestsþjónustubók Hofs í Vopnafirði 1897 stendur þetta undir fyrir-
sögninni: Innkomnir í sóknina: „Stefán Eiríksson 34 ára listamaður, frá
Kaupmannahöfn á Vopnafjörð.“