Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Page 35
INGIMAR JÓNSSON FRÁ SKRIÐUFELLI
Norðanbylur um miðjan janúar 1911
Sú stutta frásögn sem hér fer á eftir snýst um atburð sem átti sér stað
fyrir röskum áttatíu árum. Hún sýnir ljóslega hversu stutt er stundum
bilið milli lífs og dauða og einnig hve stundum mjóu munaði að íslenskt
bændafólk missti eigur og lífsbjörg út í veður og vind.
Eins og með fyrirsögn segir var þetta um miðan janúar, jörð var snjó-
létt en svellalög nokkur. Þennan dag var vestan-suðvestan hlákuvindur
um morguninn, og mun því fé allsstaðar hafa verið rekið til beitar strax
og lýsti af degi, því að mikil áhersla var á það lögð að nota vetarbeitina
þegar snjólétt var.
Þennan umrædda dag fóru frá Ketilsstöðum í Jökulsárhlíð að Húsey í
Hróarstungu hjónin Magnús Sigbjörnsson og Jónína Björnsdóttir ásamt
Bjarnheiði dóttur sinni, svo og dætur Jónínu, Þórunn og Stefanía af fyrra
hjónabandi. Mjög var þá algengt að fólk skryppi bæja á milli til að hitta
kunningja, ekki síst á vetrum þegar færi var gott.
Fjölskyldan á Ketilsstöðum var með hest og sleða í ferð þessari, enda
mun sleðafæri hafa verið hið ákjósanlegasta á svellum austur sléttlendið.
Frá Bakkagerði, sem er í leiðinni, slógust með í förina þau Níels ís-
leifsson og systurnar Bergljót og Margrét Guðjónsdætur. Sleðaferðin að
Húsey gekk auðvitað eins og best var á kosið, og þar sem mannmargt
var í Húsey á tveim bæjum, Austur- og Norðurbæ, og þar á meðal margt
af unglingum, var strax slegið upp balli og fyrir dansinum spilað á harm-
onikku. Var það Snorri Þórólfsson sem spilaði á nikkuna.
Undir slíkum kringumstæðum sem þessum var ekki verið að gá til
veðurs eða hafa áhyggjur af heimferðinni, sem þá var auðvitað ákveðin
um kvöldið.
En - þegar ballið stóð sem hæst í Húsey þennan dag, harmonikkan var
þanin af miklum móð og gömlu dansarnir stignir af fjöri og fögnuði - þá
skall norðvestanbylur á baðstofuþekjunni svo að brakaði í, og hríðar-