Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Blaðsíða 92
90
MÚLAÞING
rétt, að staurarnir voru festir á reiðinginn sinn á hvorri hlið og dróst aft-
urendi stauranna létt eftir götunni. Þessi sjón er mér ógleymanleg, bæði
vegna þess hve margir hestar voru hver á eftir öðrum, með alla þessa
staura, og svo fór fyrir fylkingunni Gunnar Jónsson bóndi á Fossvöllum
í Hlíð, frægur maður í mínum augum.
Ekki veit ég hvaðan þessir staurar komu eða hvert þeir fóru, en gamall
vinur minn og skólabróðir frá Eiðum, Einar Ö. Bjömsson í Mýnesi, gat
þess til að þeim hefði verið komið á land í lendingu, er nefnist Ker, nyrst
við Héraðsflóa. Ekki veit ég skil á sögu þessa staðar, en minnist þó at-
burðar um eða eftir 1930 er tengist þessari lendingu við ysta haf.
Vigfús hét maður Guðjónsson, hálfbróðir Guðnýjar Vigfúsdóttir, konu
Hermanns Vilhjálmssonar föðurbróður míns. Hermann og Guðný
bjuggu þá á Hrauni í Seyðisfjarðarhreppi. Heimili Vigfúsar var að Ket-
ilsstöðum í Jökulsárshlíð, en bóndinn þar, Björgvin Vigfússon, var hálf-
bróðir hans og albróðir Guðnýjar á Hrauni. Vigfús hafði veikst af löm-
unarveiki og var fluttur til Reykjavíkur, en lést þar á sjúkrahúsi. Jarð-
neskar leifar hans voru fluttar aftur til Austurlands til greftrunar í heima-
högum. Kista Vigfúsar kom með skipi til Seyðisfjarðar, og þá þurfti að
flytja hana norður í Jökulsárhlíð. Þeir bræður Hermann og Ami Vil-
hjálmssynir og líklega Vigfús Jónsson vélstjóri fluttu líkkistu Vigfúsar á
vélbátnum Magnúsi norður á Ker.
Sjávarföll og veður hafa ráðið því hvenær ferðin hófst vegna þess
hversu lendingin við Héraðsflóa var erfið. Þetta kvöld var mér eftir-
minnilegt. Það var vetur og mikill snjór. Logn var yfir sjó og landi. Sjór-
inn var eins og spegill og landið hvítt, allt undir heiðum himni. Birta frá
fullu tungli hátt á himni gerði þessa hvítu næturfegurð svolítið dular-
fulla, en vélarhljóð bátsins dvínaði og hvarf út í nóttina á leið norður á
Ker með kistuna. Á mörgum sjóferðum mínum á og út af Héraðsflóa
varð mér gjaman litið í áttina að Keri vegna þessara löngu liðnu atburð-
ar.
Víkjum aftur að ferðum okkar þremenninganna inn Jökuldalinn.
Við komum að Hvanná um kvöldið og ég minnist þess að mér þótti
óratími líða þar til við fengum eitthvað í svanginn þar á bænum. Sigurð-
ur stríddi mér á því að ég hefði sofnað sitjandi á meðan við biðum mat-
arins. Við vorum tvo daga að Hvanná og þeir félagar ræddu sparisjóðs-
málin. Það vakti athygli mína að á Hvanná virtist fólk sofa langt fram á
dag, en vinna við heyskapinn (sláttinn) á nóttinni. Mér skildist að þetta
væri algengt á Jökuldal og á Héraði til þess að nota rekjuna í grasinu svo
betur biti ljárinn.