Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Side 101
MÚLAÞING
99
færur til að fá málnytuna og gera úr henni smjör og osta, og var það
kærkomin breyting á mataræði eftir fábreyttan mat um langa vetrardaga.
Er kom fram á nítjándu öldina fóru menn að hugleiða að bæta mætti
fjárkynið og hafa af því betri og meiri afurðir, og tóku menn þá í sumum
sveitum að rækta fé sitt. Á Jökuldal voru ýmsir fjárglöggir bændur sem
ræktuðu fé sitt og tókst að fá úrvalsfé, og varð það þekkt víða og kallað
Jökuldalsfé. Um svipað leyti hefst nokkur umferð Þingeyinga austur í
Múlasýslur, og nokkrir þeirra komu með fjölskyldur sínar með sér.
Nokkrir staðnæmdust í Jökuldal og þáðu vinnufólksstarf hjá bændum
þar, og aðrir voru svo heppnir að komast í húsmennsku. Enn liðu nokkur
ár, og um 1840 bendir ýmislegt til að umræða hafi verið hafin um að
víða væri vænlegt undir bú í Jökuldalsheiðinni, að hafa mætti þar margt
fé í víðáttumiklum heiðalöndum, og afla mætti heyja í hinum grösugu
flóum, þar sem ekki væri möguleiki á heimatúni. í þá daga var heyskap-
ur að langmestu leyti fenginn af engjum, svo ekki hefur verið mikil
breyting þó heyjað væri í flóum. Það hefur þó verið erfiðara að standa
við heyskap í votlendi, en ekki var til siðs að fárast yfir slíku þá. Vafa-
laust hefur svo til eingöngu verið horft til sauðfjárræktar sem fyrr, en
einnig hafa geitur verið meðal búsmala, og eru nokkur örnefni sem
minna á geitfé, svo sem Kiðufell, og einnig er mér kunnugt um amk. tvö
örnefni í suðurbyggð heiðarinnar sem benda til svínabúskapar, þ.e.
Gyltuteigur og Svínabúðalækur. Upp úr 1841 fór svo Heiðin að byggj-
ast, og áttu Þingeyingar þar stóran hlut að máli ásamt og með Jökuldæl-
ingum og fólki af Héraði. Fyrsta býlið, Háreksstaðir, var svo byggt
1841. Fornar sagnir eru um að þar hafi fyrr verið búið, en engar heimild-
ir eru um hvort sést hafi einhver ummerki þar um mannabyggð er nýbýli
var reist, samanber þó sagnir úr Jökuldælu hinni fornu. Einnig eru
óhrekjandi dæmi um byggð við Ánavatn, á Netseli við samnefndan
tanga var bær fyrir móðuharðindi, þ.e. um 1779 og virðist vera byggð
þar einhver ár um það leyti. Það eru raunar einu áreiðanlegu heimildirn-
ar um byggð þar, því varlegt mun að taka bókstaflega munnmæli um að
Þorsteinn jökull hafi eitt sinn dvalist þar, til þess eru sagnir um hann of
óljósar.
Byggð ogfólk
Við suðurenda Sænautavatns, í um 530 m hæð yfir sjó, hófst bygging
bæjar vorið 1843. Frumbyggjar voru Sigurður Einarsson f. 22/6 1805,
Einarssonar frá Brú og kona hans Kristrún Bjarnadóttir, f. 1818, Jóns-