Múlaþing: byggðasögurit Austurlands - 01.01.1994, Side 138
136
MULAÞING
Þær lýsingar sem hér hafa verið gefnar af prestsheimilinu eiga að
sjálfsögðu við um gestaandlitið, sparisvipinn, en ekki hversdagsandlitið,
þótt oft væri einnig þá glatt á hjalla, einkum eftir að unga fólkið var far-
ið að setja svip sinn á heimilið. Heimilið var öðrum þræði bændaheimili
eins og gerðist hjá þeim prestum, sem stunduðu búskap jafnhliða prest-
skapnum og annir því oft miklar, einkum um sláttinn. Faðir minn var
allajafna mjög árrisull og byrjaði daginn, a.m.k. um heyskapartímann, á
að gá til veðurs, en hann var mjög veðurglöggur. Snæfellið sagði honum
til um hvernig viðra myndi yfir daginn. Væri það hreint að morgni, voru
ekki grið gefin. Unga fólkinu þótti þá stundum heyskaparáhuginn
óþægilega mikill, ef seint hafði verið farið að sofa kvöldinu áður.
Þrátt fyrir eigin dugnað og áhuga á að afla heyja um sláttinn, tókst
föður mínum aldrei að komast í álnir eins og sagt var um þá er efnuðust.
I því var hann eftirbátur margra starfsbræðra sinna, sveitaprestanna, sem
efnuðust vel á búskapnum, hafandi embættislaunin að auki.
Bústofninn var tíðast lítill, nema þá helst kýrnar. Móður minni fannst
þær aldrei nógu margar, svo fullnægt yrði mjólkurþörf heimilisins.
Mjólkandi kýr voru oftast 6-7 og heimilisfólkið um og yfir tuttugu
manns, fjöldi barna og sífelldur gestastraumur. Minnist ég þess, að þau
deildu stundum, prestshjónin, um þessa kúaeign. Fjöldi kúnna réði því
hversu margt fjár var hægt að hafa á fóðrum og þar með innleggi búsins
í verslanir.
Embættistekjur föður míns voru tvenns konar, eins og annarra sveita-
presta. Annars vegar svokallaðar heimatekjur og hins vegar launatekjur
úr landssjóði og fóru þær eftir því hvað heimatekjurnar voru miklar.
Þessar tekjur voru leiga eftir sjálfa prestssetursjörðina, afgjöld af jörðum
sem kirkjan átti, tekjur af hagagöngu og upprekstri í afrétt, en Valþjófs-
staður átt land inn að Vatnajökli og vestur að Jökulsá á Dal. Allar fóru
þessar tekjur eftir því hvað presturinn var aðgangsharður - laginn við
innheimtuna væri kannski réttara að segja, því að prestar urðu sjálfir að
heimta þessar tekjur sínar. Faðir minn var með afbrigðum ólaginn við
þessi innheimtustörf og skorti með öllu nenningu að eltast vð smáupp-
hæðir, eins og t.d. þriggja aura gjald fyrir hverja kind sem rekin var á
fjall, þótt hjá öðrum, sem svipaða aðstöðu höfðu, gætu þessar smáupp-
hæðir numið verulegum fjármunum, ef þær innheimtust. Hvers konar
hlunnindi töldust og til heimatekna prestsins. Þau voru engin á Valþjófs-
stað nema nokkur trjáreki úti við Héraðssand, sem alla jafnan heimtist
illa.